Slysavarnarskóli sjómanna og Landhelgisgæslan æfa saman

Mánudagur 12. desember 2005.

Mjög gott samstarf hefur verið milli Landhelgisgæslunnar og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem rekur m.a. Slysavarnarskóla sjómanna. Fyrr á þessu ári var undirritaður samstarfssamningur LHG og SL og hefur verið leitast við að auka allt samstarf og samnýtingu eins og kostur er.

Nemendur í Slysavarnarskóla sjómanna fá þjálfun í að taka á móti þyrlu og eru hífðir upp í þyrluna. Meðfylgjandi myndir voru teknar á slíkri æfingu sem haldin var nýlega.  Venjulega er björgunarskipið Ásgrímur S. Björnsson notaður við æfingarnar en að þessu sinni var hann ekki tiltækur og því bauð Landhelgisgæslan skólanum afnot af sjómælingaskipinu Baldri ásamt áhöfn. 

Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar yfirmanns vaktstöðvar siglinga tókst æfingin vel og voru allir sammála um að Baldur hentaði ágætlega til slíkra æfinga.  Þrátt fyrir að Baldur hafi verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni í yfir 14 ár hefur hann aldrei áður verið notaður við þyrluæfingar.

Á miðri æfingu renndi síðan varðskipið Týr inn á ytri höfnina til að skila viðgerðarmanni í land og því hefur vegfarendum sem leið hafa átt um hafnarsvæðið og nágrenni þess sjálfsagt þótt mikið um að vera í Rauðarárvíkinni þennan desembermorgun.


Björgunarþyrlan Sif sveimar yfir Baldri. Sjúkrabörur látnar síga niður í skipið.


Nemendur í Slysavarnarskóla sjómanna tilbúnir á þilfarinu á Baldri.




Baldur á siglingu og Týr í baksýn á leið inn á ytri höfnina.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingafulltrúi.