Forval vegna smíði nýs varðskips og útboð á nýrri flugvél fyrir Landhelgisgæsluna auglýst á þessu ári

Eftirfarandi fréttatilkynning var birt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins í morgun:

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti ríkisstjórn í morgun að farið verði í forval á skipasmíðastöðvum sem uppfylltu ákveðin skilyrði m.t.t. rekstrarstöðu og reynslu af sambærilegum verkefnum vegna smíði nýs varðskips fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Í kjölfar forvals verði valdir 5-10 aðilar sem síðan fái að bjóða í smíði á nýju fjölnota varðskipi.

Helstu kröfur til nýs varðskips eru, að það geti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, sinnt mengunarvörnum, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrlna á flugi og brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu. Skipið verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, nýst til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Í björgunarhlutverkinu felst m.a að draga skip og báta og við framkvæmd þess þarf að miða við, að umferð stórra flutningaskipa stóraukist um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum.

Tímaáætlun verkefnisins er sem hér segir:

  • Forval auglýst á EES                  24. nóvember nk.
  • Opnun forvalsgagna                    12. janúar 2006
  • Þarfalýsing LHG lögð fram          15. febrúar 2006
  • Opnun verðtilboða                      14. maí 2006

Gert er ráð fyrir að samningagerð verði lokið í júní 2006 og að nýtt fjölnota varðskip Landhelgisgæslu Íslands verði afhent innan 30 mánaða frá undirritun samnings.

Vinnuhópur Landhelgisgæslu Íslands hefur undanfarna mánuði unnið að tæknilýsingu fyrir útboð á nýrri flugvél fyrir gæsluna. Leitað hefur verið til Försvarets Materialverk (FMV) í Svíþjóð, en FMV hafði yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd útboðs sænsku strandgæslunnar á þremur eftirlitsflugvélum.

Tímaáætlun verkefnisins er sem hér segir:

  • Drög (1. útg) tilbúin                     15. des. 2005
  • Útboð auglýst á EES                  22. des. 2005
  • Tilboð opnuð þann                      8. mars 2006
  • Niðurstaða útboðs                      8. maí 2006
  • Samningur undirritaður                7. júní 2006
  • Afhending vélar til LHG               7. des. 2007


Reykjavík, 23. nóvember 2005