Erill hjá Landhelgisgæslunni um helgina

Mánudagur 18. mars 2013

Talsverður erill var hjá Landhelgisgæslunni um helgina og voru loftförin kölluð út fjórum sinnum vegna leitar- björgunar- og sjúkraflugs. Auk þess var flogið með tæknimenn á Straumnesfjall vegna vinnu við fjarskiptabúnað, farið  í eftirlits- og löggæsluflug um Faxaflóa, Breiðafjörð og Vestfirði og flogið út að Hornbjargi til að kanna friðlandið.

Eins og komið hefur fram voru þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar kallaðar út á laugardagskvöld eftir að tilkynnt var til Neyðarlínunnar um neyðarblys upp af Jökulheimum í Vatnajökli. Svæðið var leitað ýtarlega en engin skýring hefur fengist á því hver skaut upp neyðarblysinu. Neyðarblys eru mjög mikilvæg öryggistæki bæði til sjávar og á landi. Utan hins hefðbundna flugeldatímabils þarf að sækja um sérstakt leyfi til að skjóta upp skoteldum og fær Landhelgisgæslan reglulega upphringingar frá sjómönnum og almenningi sem telja sig hafa séð neyðarblys. Telst það það vera mjög alvarlegt mál ef flugeldum er skotið upp án þess að hafa fengið til þess leyfi frá lögreglu. Sjá reglugerð um skotelda nr. 952/2003

Um þriðjungur þyrluútkalla  eru að jafnaði inn á hálendið og brýnir Landhelgisgæslan fyrir ferðafólki að fara að öllu með gát, undirbúa sig vel, kanna aðstæður og veðurútlit vel áður en haldið er í óbyggðaferð.