Almannavarnaæfing á Seyðisfirði

Mánudagur 21. nóvember 2005.

Laugardaginn 19. nóvember fór fram hópslysaæfing á Seyðisfirði.  Margir viðbragðsaðilar tóku þátt í æfingunni.  Á heimasíðu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, http://www.almannavarnir.is, er mjög ítarleg frásögn af æfingunni en hún fólst í að æfa viðbrögð við alvarlegu slysi um borð í ferju á Seyðisfirði. 

Eins og fram kemur á heimasíðu Almannavarna er líkt eftir því að ferjan Sky Princess sé lögst að bryggju og afferming að hefjast.  Það verður sprenging í gaseldavél í húsbíl á bílaþilfari og talsverður eldur kviknar sem breiðist hratt út, farþegar fyllast skelfingu og reyna að ryðjast frá borði, margir troðast undir auk þess sem allmargir sem á bílaþilfarinu voru eru slasaðir og í mikilli hættu vegna elds og reyks.

Varðskipið Ægir lék ferjuna Sky Princess að þessu sinni og tók áhöfn skipsins virkan þátt í æfingunni enda er hún sérstaklega þjálfuð í viðbrögðum við eldsvoða um borð í skipi.  Sjá nánari frásögn af æfingunni á heimasíðu Almannavarna.

Meðfylgjandi myndir tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingafulltrúi.

J
Viðbragðsaðilar á þyrlupalli varðskipsins Ægis. Eins og sjá má hefur verið sett upp tjald á pallinum og var þyrluskýlið og tjaldið fullt af reyk til að gera aðstæður eins eðlilegar og mögulegt var. Síðan þurfti að fara inn í þyrluskýlið og tjaldið og leita að slösuðu fólki.


Yfirmenn viðbragðsaðila og fleiri fræðast um æfinguna.


Gert að sárum fórnarlamba slyssins.


Björgunarskipið Hafbjörg á Norðfirði kemur að varðskipinu Ægi (Sky Princess) með björgunarfólk.


Reykkafarar koma út úr kófinu og aðrir halda inn í það. 


Aðalskipuleggjendur æfingarinnar, Víðir Reynisson æfingarstjóri frá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Einar Sigurgeirsson varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / Vaktstöð siglinga (keyrslustjóri æfingarinnar).


Læknir að störfum inni í íþróttahúsinu þar sem slösuðu fólki var safnað saman.


Fleiri slasaðir fá aðhlynningu.


Sýslumaðurinn á Seyðisfirði, Ástríður Grímsdóttir og félagar hennar í aðgerðastjórn ráða ráðum sínum.  Aðgerðastjórnin hafði aðsetur í björgunarsveitarhúsinu á Egilsstöðum.


Ástríður Grímsdóttir sýslumaður á Seyðisfirði ásamt kollegum sínum, Jóhanni Benediktssyni sýslumanni á Keflavíkurflugvelli og Sigríði Guðjónsdóttur sýslumanni á Ísafirði.


Samhæfingarstöðin í Reykjavík tók virkan þátt í æfingunni en það er sameiginleg stjórn- og samræmingarstöð á landsvísu í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð.