Tundurduflaslæðarar heimsækja Ísland

  • Tundurd_slaedarar

Þriðjudagur 7. maí 2013

Næstkomandi fimmtudag er von á heimsókn flota tundurduflaslæðara Atlantshafsbandalagsins til Íslands. Skipin verða staðsett við Skarfabakka meðan á dvölinni stendur og er almenningi boðið að koma í heimsókn um borð laugardaginn 11. maí og sunnudaginn 12. maí kl. 14:00 – 17:00 og aftur laugardaginn 18. maí og sunnudaginn 19. maí kl. 14:00 - 17:00.

Flotinn samanstendur af fimm tundurduflaslæðurum frá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins sem fyrst og fremst sinna mannúðarstarfi, þau eru ORP Czernicki frá Póllandi, BNS Bellis frá Belgíu, FGS Weilheim frá Þýskalandi, HNOMS Hinnøy frá Noregi og HNLMS Urk frá Hollandi. Helstu verkefni skipanna felast í að leita að tundurduflum og sprengjum í sjó og eyða hlutum sem fólki getur stafað hætta af. Einnig sinna þeir slökkvistörfum og sjúkraflutningum þegar á þarf að halda.  Forystuskip flotans er pólska skipið ORP Czernicki.

Skipin munu starfa með Landhelgisgæslunni, æfa tundurduflavarnir og fleira meðan á dvöl þeirra hér á landi stendur. Einnig verður almenningi og viðbragðsaðilum boðið að kynnast starfsemi skipanna, haldið verður fótboltamót og fleira.

Skipin koma til Íslands eftir að hafa tekið þátt í æfingu á Norðursjó en fyrr á árinu tók flotinn þátt í fjölþjóðlega verkefninu BENEFICIAL COOPERATION sem fór fram við strönd Belgíu, Hollands og Bretlands. Þar fundu skipin og eyddu átta neðansjávarsprengjum sem innihéldu samtals tvö tonn af TNT sprengiefni. Á síðastliðnum 100 dögum hafa skipin heimsótt tíu hafnir í sex þjóðlöndum: Neustadt og Lübeck í Þýrskalandi, Den Helder í Hollandi; Zeebrugge og Oostende í Belgíu; Cork á Írlandi og Liverpool,  Faslane og Belfast á Bretlandi; Þórshöfn í Færeyjum.  

Atlantshafsbandalagið rekur tvo flota tundurduflaslæðara. Er þetta flotinn sem sinnir norðursvæðinu og kallast Standing NATO Mine Countermeasures Group ONE (SNMCMG 1)). Hinn flotinn er Group TWO og starfar á suðursvæðinu.

Flotinn kom síðast til Íslands í ágúst 1998 og má hér sjá grein frá þeim tíma sem birtist í Morgunblaðinu.

Nánari upplýsingar:
http://www.mcm.mw.mil.pl/
http://www.mc.nato.int/org/smg/Pages/SNMCMG1.aspx

130426.17_large
Unnið að slökkvistarfi.