Skólabörn á Seyðisfirði í heimsókn um borð í varðskipinu Ægi

Miðvikudagur 9. nóvember 2005.

Það var líf og fjör um borð í varðskipinu Ægi á dögunum þegar grunnskólabörn á Seyðisfirði komu í heimsókn í varðskipið og skoðuðu það hátt og lágt.

Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi átti þátt í að skipuleggja heimsókn yngri bekkja grunnskólabarna á Seyðisfirði og tók við það tækifæri meðfylgjandi myndir.  Að hans sögn
komu tæplega 60 manns í allt í heimsókn, eða 59 með kennurum. Fyrri hópurinn kom kl. 10 og var tekið á móti þeim við landganginn og farið með þau undir skutfánann og tekin hópmynd. Eftir það var talað við krakkana um daginn og veginn og spurningum svarað um marga skemmtilega hluti þar sem athyglin var allstaðar og mjög einbeittur vilji til þess að fá svör við hlutunum. T.d kom spurning um af hverju okkar fáni væri eins og rifinn, skemmtileg spurning, og var henni svarað á þann hátt að þessi fáni væri ríkisfáni og væri því aðeins öðruvísi en venjulegur fáni. Næst var gengið um skipið úti og margir spennandi hlutir skoðaðir, bátar, fallbyssa, o.fl. sem er á skipinu. Þegar þessu var lokið var hópnum skipt í tvennt og skipið skoðað að innan. 

Inni í skipinu var brúin skoðuð og vélarrúmið. Í lokin var svo farið niður í eldhús þar sem brytinn og háseti í eldhúsi voru búin að setja smá sælgæti í poka handa gestunum. Eftir það fór hópurinn í land og kvaddi og þakkaði fyrir sig. Þá var klukkan orðin 11 og næsti hópur tilbúinn að koma um borð.

Leikurinn var svo endurtekinn og allt gert eins og með fyrri hóp. Guðmundur lét kennarana fá skriflegar upplýsingar um skipið sem hann hafði útbúið og var tjáð að það myndi koma sér vel þar sem krakkarnir fara svo í hópavinnu um heimsóknina. Seinni hópur fór svo í land kl. 12 og tveggja tíma skemmtilegri morgunheimsókn lokið.

Að sögn Guðmundar er mjög gaman að fara um skipið með börnum á þessum aldri úti á landi því það eru börnin sem búa við höfnina og sjá því skipin og áhöfnina oft. Eftir að hafa komið um borð og séð hvað er inni í skipinu öðlast þau nýja sýn á skipið og fólkið um borð. 
 

Guðmundur skráði hjá sér nokkur gullkorn sem hann heyrði frá börnunum á meðan á heimsókninni stóð:
 

Svakalega eru margar tölvur um borð í svona skipi (allir skjáir, radarar og siglingarskjáir flokkaðir sem tölvur).

Þarf svona marga síma á einni skrifstofu (talstöðvar og símtól í brúnni sett undir sama hatt).

Ég ætla sko að verða stýrimaður þegar ég verð stór, það þarf að tala í svo marga síma.

 

Sævar Már háseti spurði börnin hvernig þeim litist á svona varðskip.  Ein stúlkan svaraði mjög skemmtilega: Þetta er svo sem ekkert merkilegt, nokkrar skrifstofur og einn matsölustaður.


Hópur 1 á framdekki. Margt að skoða.


Hópur 1 stillir sér upp á þyrlupalli.


Hópur 2 á framdekki.


Hópur 2 stillir sér upp á þyrlupalli.  Ef vel er að gáð má sjá að sumir strákarnir heilsa að hermannasið.


Erna Hörn Davíðsdóttir með nammipoka sem hún fékk hjá brytanum.