Sýn kölluð út vegna neyðarskeyta frá skútu við Vestur-Grænland - Aðstoðarbeiðni afturkölluð

Mánudagur 7. nóvember 2005.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga barst neyðarskeyti frá neyðarsendi um Cospas Sarsat gervihnattakerfið kl. 6:47 í morgun.  Staðfest staðsetning (resolved position) kom síðan með neyðarskeyti kl. 8:05 en samkvæmt skeytinu var neyðarsendir staðsettur um 60 sjómílur suðvestur af Nassasuaq á Suður Grænlandi.  Staðsetningin er innan grænlenska leitar- og björgunarsvæðisins.  

Björgunarstjórnstöðin í Bodö í Noregi hafði síðan samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og upplýsti að neyðarsendirinn tilheyrði ástralskri skútu, Fine Tolerance. Björgunarstjórnstöðin í Grönnedal á Grænlandi hafði reynt án árangurs að ná sambandi við skútuna.  Mjög slæmt veður var á þessum slóðum, 10-11 vindstig, og ölduhæð 10-12 metrar.  

Björgunarstjórnstöðin í Halifax hafði þarnæst samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og óskaði eftir upplýsingum um flugvélakost Varnarliðsins og Landhelgisgæslunnar til langflugs í leit og björgun. Send var Hercules-flugvél frá Halifax til leitar á svæðinu en áætlað var að hún kæmi þangað um kl. 14-16.  

Um tíuleytið óskaði björgunarstjórnstöðin í Grönnedal eftir Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, til leitar á svæðinu en 750 sjómílur voru frá Reykjavík til leitarsvæðisins.  Áhöfn Sýnar var þegar kölluð út ásamt útkikksmönnum frá flugbjörgunarsveitinni.   Rétt fyrir hádegið, er Sýn var að halda af stað til leitar, var aðstoðarbeiðnin afturkölluð þar sem skútan hafði fundist og allt var í lagi um borð.  Talið var að sjór hefði komist í neyðarsendinn og hann hafi þess vegna farið í gang.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.