Stokkið úr flugvélinni Sif yfir Grænlandi 

Fimmtudagur 5. september 2013

Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar, varðskipið Týr, stjórnstöð og starfsfólk LHG við Keflavíkurflugvöll  héldu í gær áfram þátttöku sinni í æfingunni Sarex Grænland 2013. Handrit æfingarinnar fjallar um aðstæður þar sem skemmtiferðaskipið Arctic Victory, með um 200 farþega og 48 manns í áhöfn lendir í áföllum. Skipið strandar, eldur kviknar um borð og neyðarkall er sent út frá skipinu. Viðbragðsaðilar þurfa að staðsetja skipið, slökkva elda og flytja sjúklinga og skipbrotsmenn frá skipinu, ákveðið hlutfall þeirra þarf að senda á sjúkrahús, m.a. í Reykjavík.


Reykkafarar fluttir frá varðskipinu Týr

Flugvélin flaug með sjö fallhlífastökkvara frá flugbjörgunarsveitinni á svæðið og stukku þeir út yfir Ella Island sjá hér . Fimm stukku úr 4000 fetum og tveir úr 1000 fetum. Einnig var ýmsum björgunarbúnaði, tjöldum og vistum fyrir aðhlynningarstöð, kastað út í 300 fetum. Gekk aðgerðin vel.
Sjá hér vídeó sem var tekið úr eftirlitsbúnaði flugvélar Landhelgisgæslunnar og myndasafn.

Hér er vídeó sem flugbjörgunarsveitin setti saman eftir æfinguna


Varðskipið Týr fór til aðstoðar og sendi sex reykkafara, dælur og ýmsan búnað með harðbotna björgunarbát sem einnig var notaður við björgun farþega og fleira. Aðgerðir gengu vel og voru allir sáttir við árangur dagsins. Æfingin heldur áfram í dag, fimmtudag. 


Einnig tóku þátt í æfingunni danskir nemar í blaða- og fréttamennsku. Voru þeir með mikinn þrýsting á alla viðbragðsaðila sem sendu björgunareiningar á svæðið og var það gagnlegt öllum þeim sem komu að æfingunni. Sjá fréttir þeirra á  vefsíðunni http://sarex13.mediajungle.dk/

Mynd af fallhlífarstökkvurum fengin frá Flugbjörgunarsveitinni. Aðrar myndir eru teknar úr eftirlitsbúnaði TF-SIF en með flugvélinni hefur eftirlitsgeta LHG margfaldast með tilliti til leitar- og björgunar, fikveiða og hafíss. Um borð eru tvær vinnustöðvar sem útbúnar  MMS (Mission Management System) sem m.a. aðstoðar við framkvæmd eftirlits, úrvinnslu og samhæfingar þeirra gagna sem safnað er, þ.e. í almennu fiskveiði-, ís- og mengunareftirliti.  Allar aðgerðir og upplýsingar úr eftirlitsbúnaði eru teknar upp og hægt er að framkvæma myndvinnslu samhliða upptöku. Sjá nánar um getu flugvélarinnar.