Æfing slökkviliðs Akureyrar með varðskipinu Týr

Þriðjudagur 22. október 2013

Slökkvilið Akureyrar æfði nýverið um borð í varðskipinu Týr þar sem það er staðsett á Akureyri. Um var að ræða lið í stjórnendanámskeiði slökkviliðsins. Í æfingunni var sett upp atvik þar sem kviknað hafði í farþegaskipi og var fjögurra farþega saknað.


Einar Valsson, skipherra fer yfir teikningar af skipinu með slökkviliðsmönnum.

Þegar slökkvilið mætti á staðinn var byrjað á að ákveða bestu aðgönguleiðir með því að fara yfir teikningar af skipinu með stjórnendum og reykköfurum. Sett var upp reykvél á afturþilfari varðskipsins og fóru reykkafararnir því inn í mjög raunverulegar aðstæður. Að lokinni æfingu var farið yfir helstu niðurstöður og voru þátttakendur mjög sáttir við aðstöðuna og æfinguna í heild sinni. Einnig var farið með þátttakendum æfingarinnar um skipið og farið yfir búnað um borð er varðar slökkvistörf, sjúkraflutninga og flutningsmöguleika skipsins á mannskap og búnaði.


Búast má við frekari samæfingum milli viðbragðsaðila fyrir norðan á næstu vikum en gert er ráð fyrir að Týr verði til taks á Akureyri næstu vikur. Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að vera hlekkur í því að gæta sem best öryggis almennings og vera sem best viðbúin hinum ýmsu aðstæðum sem geta komið upp á sjó og landi. Þáttur í því er að æfa reglulega með viðbragðsaðilum víðsvegar um landið þær aðstæður sem geta komið upp í starfi þeirra.