Starfsfólk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins heimsækir varðskipið Ægi

Föstudagur 28. október 2005.

Síðastliðinn föstudag bauð Landhelgisgæslan Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra og starfsfólki dómsmálaráðuneytisins um borð í varðskipið Ægi til að skoða skipið eftir breytingar og endurbætur sem gerðar voru í Póllandi fyrr á árinu. Fyrirhugað var að fara í stutta siglingu en vegna veðurs var hætt við það.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra þakkaði fyrir gott boð og af þessu tilefni gaf hann skipinu nýtt lagasafn sem hann afhenti Halldóri B. Nellett skipherra varðskipsins Ægis.

Jón Páll Ásgeirsson tók meðfylgjandi myndir er starfsfólk ráðuneytisins heimsótti skipið.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra afhenti Halldóri Nellett skipherra nýtt lagasafn fyrir skipið um leið og hann þakkaði fyrir boðið. Lagasafnið kemur sér afskaplega vel því að áhafnir skipanna fara með lögregluvald á hafinu og oft og tíðum eru engir möguleikar á að komast á vefinn til að skoða lagasafnið þar þegar á þarf að halda.


Georg Kr. Lárusson bauð gesti velkomna og þakkaði ráðherra fyrir góða gjöf. Hann sagði að það hafi verið ákveðið á sólbjörtum sumardegi að bjóða dóms- og kirkjumálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins í siglingu á varðskipinu Ægi en nú væru veður válynd og leit að neyðarsendi stæði yfir þannig að það væri vart þorandi eins og sakir stæðu að láta úr höfn því þá gæti ráðuneytisfólkið endað úti á hafi í björgunarleiðangri.  Halldór B. Nellett hafði orð á því að um borð í varðskipinu væri 18 manna áhöfn og þar af þrír starfsmenn konur.  Þótt þær væru ekki margar væri fjöldi þeirra um borð með mesta móti miðað við það það sem áður var. Georg Kr. Lárusson forstjóri hefði lýst því yfir að hann vildi auka hlut kvenna hjá Landhelgisgæslunni. Halldór taldi að það væri einstakt í íslenskri útgerðarsögu að hafa verið með sama skipsnafnið, Ægir, í notkun síðan 1929 og einungis notað til þess tvö skip.  Gamli Ægir hafi verið í notkun í tæp 40 ár og ,,nýi" Ægir orðinn 37 ára.  Einungis hafi örfáir mánuðir liðið á milli skipa. 


Hluti af áhöfn Ægis frá vinstri, Jakob V. Guðmundsson vélstjóri, Birkir Pétursson smyrjari, Sævar Már Magnússon háseti, Linda Ólafsdóttir háseti og Guðrún Einarsdóttir háseti.


Þórunn Lind Elíasdóttir háseti, Adrian King fagstjóri sprengjusveitar, Jónas Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar og Thorben J. Lund yfirstýrimaður.


Í setustofu varðskipsins Ægis var sýnd kynning Gylfa Geirssonar á skipinu, þ.m.t. myndir af skipinu eins og það var fyrir breytingar, myndir frá Póllandi sem sýndu breytingarnar stig af stigi og síðan myndir af skipinu eins og það lítur út í dag. Frá vinstri: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Halldór B. Nellett skipherra, Jónas Ingi Pétursson rekstrarhagfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, Jón Geir Jónatansson bílstjóri ráðherra, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri LHG, Gylfi Geirsson yfirmaður fjarskipta- og upplýsingatæknisviðs LHG og Þorsteinn Helgi Steinarsson verkefnisstjóri fjarskipta- og upplýsingatækni í dómsmálaráðuneytinu.


Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Árni Vésteinsson deildarstjóri kortadeildar, Eygló Halldórsdóttir ritstjóri Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins og Einar H. Valsson yfirstýrimaður á varðskipinu Ægi skoða stjórntæki skipsins. Benóný var áður stýrimaður á varðskipinu Ægi og því þekkir hann vel stjórntæki skipa og loftfara. Reyndar hefur orðið mikil breyting á stjórnstækjunum síðan Benóný stóð vaktir á stjórnpalli Ægis á sínum tíma.


Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á varðskipinu Tý útskýrir hvernig tækin virka. Hlín Þórhallsdóttir rekstrarfulltrúi og Eygló Halldórsdóttir ritstjóri Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs fylgjast með af athygli ásamt Sólmundi Má Jónssyni framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Landhelgisgæslunni.


Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi ræðir við Jónas Inga Pétursson rekstrarhagfræðing í dómsmálaráðuneytinu.


Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók þessa mynd af Ægi nýlega. Brúin hefur verið stækkuð og endurbætt, þ.m.t. stjórntæki skipsins, vistarverur skipverja endurnýjaðar og skipið hefur nú nýtt og öflugra spil.