Landhelgisgæslan stýrir aðgerðum á vettvangi

Þyrla Landhelgisgæslunnar, Líf,  hefur síðdegis í dag verið á vettvangi flutningaskipsins Fernanda og er varðskipið Þór er á leiðinni á staðinn með slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að skipið verði komið á staðinn síðar í kvöld.

Lóðsinn í Vestmannaeyjum er á staðnum og sprautar sjó yfir eldinn sem virðist vera í rénun.Varðskipið  Þór mun taka við aðgerðum á vettvangi þegar komið verður á staðinn í kvöld. Landhelgisgæslan mun síðan meta stöðuna að nýju í fyrramálið með Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og öðrum viðbragðsaðilum.

Aðgerðir hafa gengið í alla staði mjög vel og mjög góð samvinna hefur verið milli allra viðbragðsaðila en Samhæfingastöð almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð meðan aðgerðir stóðu yfir.

Varðskipið Þór er búið öflugum slökkvibúnaði sem sérstaklega er ætlað að sinna slökkvistörfum á sjó.

Fernanda er 75 metra langt skip og um 2.500 brúttótonn. Skipið er skráð í Dóminíska lýðveldinu og var byggt árið 1981.



Áhöfn Fernanda um borð í þyrlunni Gná.


Þór leggur af stað frá Reykjavík