Varðskipinu Þór hefur tekist að draga verulega úr eldi um borð í Fernanda

Varðskipið Þór hefur síðan í gærkvöldi verið við slökkvistörf á vettvangi og stýrt aðgerðum vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda suður af Vestmannaeyjum en áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNA  tókst giftusamlega að bjarga ellefu manna áhöfn skipsins um borð í þyrluna í gærdag.

Enn logar eldur í skipinu og er unnið samkvæmt aðgerðaáætlun Landhelgisgæslunnar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við að ráða niðurlögum eldsins en um borð í Þór eru meðal annars fimm slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Varðskipið Þór hefur unnið stöðugt í nótt við slökkvistörf og hefur tekist að draga verulega úr eldinum sem var mikill er slökkvistörf hófust.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF er farin í loftið og mun hún ferja varðskipsmenn og slökkviliðsmenn um borð í Fernanda fyrir hádegi þar sem aðstæður um borð verða metnar með tilliti til öryggis skipsins og sjóhæfni sem og mögulegrar umhverfisógnar.  Í framhaldinu er ráðgert að varðskipið Þór dragi skipið á Faxaflóasvæðið þar sem aðstæður til frekari slökkvistarfa eru betri.   Landhelgisgæslan leggur kapp á að koma skipinu sem fyrst í öruggt skjól.  Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru hagstæðar og því lögð áhersla á að nota þann tíma vel.

Við aðgerðir notast Landhelgisgæslan meðal annars við sérstakar hitamyndavélar um borð í varðskipinu Þór sem gera það kleift að fylgjast með þróun og útbreiðslu eldsins og dreifingu hita.  Þá eru léttabátar varðskipsins nýttir sem öryggistæki og til að ferja búnað. 

Haldinn hefur verið samráðsfundur með viðeigandi aðilum, svo sem Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Rannsóknarnefnd sjóslysa, umboðsmanni skipsins og fulltrúum eigenda og tryggingafélaga og hafa aðilar verið upplýstir um aðstæður og aðgerðaráætlun.