Flutningaskipið Fernanda dregið vestur af Faxaflóa

- mikill hiti í skrokk skipsins.

Föstudagur 1. nóvember 2013 kl. 23:15

Varðskipið Þór hefur nú dregið flutningaskipið Fernanda vestur af Faxaflóa, á svæði þar sem skipið telst fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar.  Þá er allnokkuð dýpi á þessum slóðum.  Staðsetningin er í samræmi við ákvörðun sem tekin var á samráðsfundi Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar nú fyrr í dag með það fyrir augum að forðast sem verða má umhverfisslys og um leið tryggja sem best öryggi viðbragðsaðila á vettvangi.  Nokkur vindur er á svæðinu.

Við skoðun áhafnar Þórs og slökkviliðsmanna SHS á ástandi Fernanda nú í kvöld mátti sjá að mikill hiti er í skrokk skipsins og því verður skipinu haldið á rólegri ferð í þeirri von að síður skipsins kólni og það haldist á floti.  Er ætlunin að halda þeirri aðgerð áfram í nótt og endurmeta stöðuna í birtingu í fyrramálið.

Hér eru myndir sem Jón Kr. Friðgeirsson, bryti tók við brottför úr Hafnarfjarðarhöfn.