Aðgerðum við Fernanda haldið áfram - leitast við að draga úr hættu á mengun

Varðskipið Þór er enn með flutningaskipið Fernanda á sömu slóðum og í gærkvöldi þ.e vestur af Faxaflóa en telst það svæði samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum. 

Enn er mikill hiti í síðum skipsins og sprautar varðskipið Þór á skipið eftir því sem aðstæður leyfa.  Leitast er við að halda skipinu á floti og forða því að eldur komist í aðalolíutanka skipsins.  Þannig miðast allar aðgerðir við að draga úr hættu á mengun og um leið tryggja sem best öryggi á vettvangi.

Áætlað er að þyrla Landhelgisgæslunnar fari á vettvang eftir hádegi til aðstoðar.  Verður aðgerðum haldið áfram fram eftir degi og staðan endurmetin ef breyting verður á.