Björgunareiningar Landhelgisgæslunnar kallaðar tilbaka eftir samráð við Eimskip

Mánudagur 11. nóvember 2013 kl. 10:45

Eftir samráð Landhelgisgæslunnar og Eimskips vegna björgunaraðgerða flutningaskipsins Goðafoss hefur verið ákveðið að kalla tilbaka björgunareiningar Landhelgisgæslunnar. Flugvélin Sif kom á staðinn upp úr klukkan níu og er hún nú á leið til Reykjavíkur. Varðskipið Þór og þyrlurnar Líf og Gná eru einnig á leið tilbaka. Færeyska varðskipinu Brimil hefur verið snúið aftur til Færeyja.

Áhöfn Goðafoss tókst að slökkva eldinn sem kviknaði í skorsteinshúsi skipsins snemma í morgun. Óskað var eftir aðstoð um klukkan 05:00 og kallaði Landhelgisgæslan þá samstundis út þyrlur Landhelgisgæslunnar, flugvél og varðskip. Báðar þyrlurnar og flugvél Landhelgisgæslunnar fóru í loftið skömmu síðar og varðskipið Þór hélt áleiðis á vettvang.

Samhæfingarstöð  í Skógarhlíð var virkjuð meðan aðgerðir stóðu sem hæst en skipið var staðsett í íslenskri björgunarlögsögu. Einnig var  Landhelgisgæslan í sambandi við björgunarmiðstöðina í Færeyjum og björgunarmiðstöðina á N-Bretlandi vegna málsins  

Goðafoss er á leið til landsins frá Evrópu, skipið hafði viðkomu í Færeyjum en fór þaðan kl. 09:00 í gærmorgun. Skipið er hlaðið hefðbundnum farmi.

Myndin sýnir þyrlurnar Líf og Gná á Höfn í Hornafirði snemma í morgun.