Mikilvægi Sifjar við björgunaraðgerðir - myndir úr eftirlitsbúnaði af Goðafoss

Mánudagur 11. nóvember 2013

Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar lenti fyrir stundu í Reykjavík eftir að hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum vegna flutningaskipsins Goðafoss. Á meðfylgjandi myndum sem teknar voru með eftirlitsbúnaði flugvélarinnar má sjá Goðafoss þegar flugvélin kom að skipinu í morgun.

Sif er afar mikilvægt eftirlits- og björgunartæki og um borð er lykilbúnaður við leit, björgun, löggæslu sem og eftirlit innan íslenska hafsvæðisins.

Flugvélin er m.a. búin öflugri hitamyndavél og ratsjá sem er mjög langdræg og með mikla greiningarhæfni. Ratsjáin er sérstaklega hönnuð með eftirlit á sjó í huga og getur fundið lítil endurvörp í slæmum veðrum. Mögulegt er að opna stóra hurð á flugi til að varpa úr björgunarbátum og öðrum björgunarbúnaði til sjófarenda. Einnig hafa fallhlífastökkvarar stokkið úr flugvélinni.  Auk þess er flugvélin búin hliðarratsjá sem aðallega er notuð til mengunareftirlits og ískönnunar.

Leitar- og björgunarsvæði Íslands, samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum er um 1,8 milljón ferkílómetrar að stærð eða meira en tvöfalt stærra en efnahagslögsagan.  Landhelgisgæslan ber því ábyrgð á gífurlega stóru svæði á erfiðu hafsvæði og er mikilvægt að hafa til taks öflugar björgunareiningar til að bregðast við áföllum.  Auk þess er samstarf við nágrannaþjóðir á þessum vettvangi gríðarlega mikilvægt eins og raun bar vitni í aðgerðum í morgun er Færeyjar sendu skip af stað. Þá spila nærliggjandi skip og bátar spila ávallt mikilvægt hlutverk.  Mikil og góð samvinna er við þá aðila sem bera samskonar ábyrgð beggja vegna Norður-Atlantshafsins og þegar svo ber undir er allra mögulegra alþjóðlegra leiða leitað til að koma skipum, bátum eða loftförum til aðstoðar sem lent hafa í óhöppum.  Samstarf og tenging Landhelgisgæslunnar við viðbragðsaðila nágrannaþjóðanna er því ein af grundvallarstoðum starfseminnar.


Myndir úr hitamyndavél TF-SIF.