Björgunaræfing haldin um borð í varðskipinu Týr

Mánudagur 18. nóvember 2013

Nýverið var haldin björgunaræfing um borð í varðskipinu Týr sem er nú staðsett á Akureyri. 

Í æfingunni var varðskipið í hlutverki strandaðs skips með 25 manna áhöfn sem hlaut ýmiskonar áverka við strand skipsins. Nauðsynlegt var að koma slösuðum frá borði með bátum og þaðan í móttökustöð slasaðra sem var sett upp af Súlum, björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Akureyri.

Voru allir aðilar sammála um að æfingin heppnaðist vel og er nauðsynlegt að æfa reglulega viðbrögð við áföllum sem þessum og verklag sem þarf að hafa í huga við flutning slasaðra milli báta og skipa. Æfingin eflir enn frekar samstarf Landhelgisgæslunnar og annarra björgunaraðila. Þeir sem tóku þátt í æfingunni voru auk Landhelgisgæslunnar, félagar björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Súlur á Akureyri og björgunaraðilar frá Húsavík og Dalvík.