Óvenju margir við vinnu í flugskýli LHG

  • _33A2291

Mánudagur 13. janúar 2013

Óvenju fjölmennur hópur er þessa dagana við vinnu í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Flugvélin TF-SIF er í reglubundinni C-skoðun sem er nokkuð umfangsmikil og er hún í umsjón flugvirkja Landhelgisgæslunnar sem hafa fengið flugvirkja frá Flugfélagi Íslands til aðstoðar. Einnig er Lynx þyrla dönsku varðskipanna í skoðun og fylgir henni um 20 manna hópur flugvirkja.

Lynx þyrla er að venju staðsett um borð í varðskipi því sem sinnir leit, björgun og eftirliti við Grænland. Þyrlan flýgur að skoðun lokinni um borð í HDMS Hvidbjörnen sem kom til Reykjavíkurhafnar fyrir helgina.

Samstarf Landhelgisgæslunnar og danska sjóhersins byggir á áratuga góðri samvinnu sem meðal annars felst í samæfingum, starfsmannaskiptum og samstarfi við leit og björgun í Norður Atlantshafi. Lynx þyrlur þeirra hafa verið í viðbragðsstöðu fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar þegar upp koma lengri sjúkra- eða björgunarflug.

Mynd af flugskýlinu Árni Sæberg.