Hálfrar aldar afmæli flugdeildar Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 14. otkóber 2005.

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag:

Á þessu ári er liðin hálf öld frá því að Landhelgisgæslan eignaðist fyrstu flugvélina en það gerðist 10. desember 1955. Landhelgisgæslan hafði áður leigt Grumman Goose flugbát til landhelgisgæslustarfa af Flugfélagi Íslands sumarið 1948-1949 sem bar einkennisstafina TF-ISR.  Fyrsta flugvél Landhelgisgæslunnar, sem flugdeildin miðar afmælisár sitt við, var Katalínaflugbátur, sem bar einkennisstafina TF-RAN, og var af gerðinni Consolidated PBY-6A.  Rán var notuð til ársins 1962 en þá eignaðist Landhelgisgæslan Douglas DC-4, Skymasterflugvél, sem bar einkennisstafina TF-SIF og var í eigu Landhelgisgæslunnar þar til hún var seld til Bandaríkjanna í október 1971.  Þyrlur komust á spjöld flugsögu Landhelgisgæslunnar árið 1965 en stofnunin eignaðist sína fyrstu þyrlu í apríl það ár.  Þyrlan fékk einkennisstafina TF-EIR en hún var af gerðinni Bell Ranger 47-J og dugði í ríflega 6 ár eða allt þar til hún brotlenti á Skíðamannaafrétti á Rjúpnafelli í 830 metra hæð 9. október 1971.  Tveir menn sem voru um borð í þyrlunni slösuðust ekki.  Í ársbyrjun 1972 keypti Landhelgisgæslan flugvél af gerðinni Fokker F-27-200 sem bar einkennisstafina TF-SYR og var hún í notkun til ársins 1982.  Fyrsta eiginlega björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar var einnig keypt árið 1972 og fékk hún einkennisstafina TF-GNA.  Hún var af gerðinni Sikorsky S-62 og var sérstaklega hönnuð til gæslustarfa yfir sjó.  Gná brotlenti á Skálafelli 3. október 1975 eftir að öxull í stélskrúfu brotnaði en áhöfnina sakaði ekki. Þyrlufloti Landhelgisgæslunnar var nokkuð öflugur árið 1973 en þá eignaðist Landhelgisgæslan einnig tvær þyrlur af gerðinni Bell.  Þær báru einkennisstafina TF-HUG og TF-MUN.  Upphaflega voru þær keyptar þar sem þær þóttu henta vel til eftirlits, gæslustarfa og krókvinnu.  Þær gátu smæðar sinnar vegna lent á palli varðskipanna og þóttu hafa góða burðargetu miðað við stærð.  Reynslan af þessum þyrlum var þó ekki góð og var hætt að nota þær í desember 1974 eftir að ýmis óhöpp höfðu átt sér stað. Árið 1976 var enn ein þyrlan keypt en hún var af gerðinni Hughes 500 C og bar einkennisstafina TF-GRO.  Hún brotlenti fjórum árum síðar, 19. nóvember 1980, við Búrfellsvirkjun eftir að hún hafði flogið á loftlínu. Enginn slasaðist við það óhapp.  Árið 1976 var einnig keypt flugvél af gerðinni Fokker Friendship F-27, sem hlaut einkennisstafina TF-SYN.  Syn er enn í notkun hjá Landhelgisgæslunni en ríkisstjórnin hefur ákveðið að kaupa nýja eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæsluna og er reiknað með að hætt verði að fljúga Syn á næsta ári.  Sama ár og TF-GRO brotlenti, 1980, eignaðist Landhelgisgæslan þyrlu af gerðinni Sikorsky S-76 og bar hún einkennisstafina TF-RAN.  Rán var vel útbúin og hafði meðal annars öflug spil til björgunarstarfa. Sá hörmulegi atburður gerðist  8. nóvember 1983 að Rán fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum og með henni fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þeir Björn Jónsson flugstjóri, Þórhallur Karlsson flugstjóri, Bjarni Jóhannesson flugvélstjóri og Sigurjón Ingi Sigurjónsson stýrimaður.  Árið 1981 eignaðist Landhelgisgæslan þyrlu af gerðinni Hughes 500 D en hún var nokkuð svipuð og TF-GRO sem brotlenti við Búrfellsvirkjun og hlaut sömu einkennisstafi og hún.  Þriðja þyrlan með þessum einkennisstöfum, TF-GRO, kom til Landhelgisgæslunnar árið 1986 og var þá nafna hennar seld.  Nú hefur Landhelgisgæslan tvær þyrlur, þ.e. Sif (af gerðinni Aerospatiale Dauphin II SA-365 N) sem tekur 8 farþega í sæti og hefur 400 sjómílna hámarksflugdrægi og Líf (af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS-332L1) sem tekur 20 farþega í sæti og hefur 625 sjómílna hámarksflugdrægi.  Landhelgisgæslan eignaðist Sif, sem ber einkennisstafina TF-SIF, árið 1985 og á hún því 20 ára afmæli en Líf sem ber einkennisstafina TF-LIF, kom til landsins árið 1995 og er því 10 ára gömul. Landhelgisgæslan hefur valið daginn í dag til að halda hátíð af því tilefni að 50 ár eru liðin frá því að fyrsta flugvélin var keypt til Landhelgisgæslunnar, 40 ár frá því að fyrsta þyrlan kom og Sif er 20 ára og Líf 10 ára. Landhelgisgæslan fagnaði því einnig nýverið að flugtæknideildin hlaut EASA-vottun en það er til marks um að deildin uppfylli öryggisstaðla Flugöryggisstofnunar Evrópu.  Það er eitt af meginmarkmiðum Landhelgisgæslunnar að stuðla að sem mestu öryggi í flugrekstri sínum, starfsfólki, landsmönnum og sjófarendum, sem þessi öflugu björgunartæki þjóna, til heilla.

Höfundur: Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur og upplýsingaftr.

Landhelgisgæslu Íslands