Eldur í strandveiðibát á Breiðafirði

  • _MG_0659

Mánudagur 5. maí 2014

Eldur kviknaði í morgun í stýrishúsi strandveiðibáts sem var staðsettur á miðjum Breiðafirði. Landhelgisgæslunni barst neyðarkallið á rás 16 kl. 08:05 og áframsendi það með því að upplýsa skip og báta á svæðinu um stöðu mála.  Fljótlega komu nokkrir bátar til aðstoðar og náðist að slökkva eldinn á skömmum tíma. 

Bátsverjar sluppu án meiðsla en þar sem báturinn var vélarvana í framhaldinu var áhöfn björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Björg á Rifi, kölluð út og lagði af stað til aðstoðar bátnum upp úr kl. 0900.  Gott veður er á svæðinu.