Leitar- og björgunaræfing þjóða Norðurskautsráðsins stendur yfir hér á landi

Þriðjudagur 6. maí 2014

Leitar og björgunaræfingin Arctic Zephyr hófst í morgun en hún er haldin á vegum yfirherstjórnar Bandaríkjanna USEUCOM og taka þátt í henni þjóðir innan Norðurskautsráðsins. Æfingin fer fram á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem rekið er af Landhelgisgæslu Íslands.  

Æfingin stendur yfir í tvo daga en um er að ræða skrifborðsæfingu þar sem íslenskar stofnanir, fyrirtæki og björgunaraðilar vinna að viðamiklu leitar- og björgunarverkefni ásamt samstarfsþjóðunum sem eru Bandaríkin, Kanada, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð.  Samtals taka um 50 aðilar þátt í æfingunni, þar af 32 erlendir.  Íslenskir þátttakendur æfingarinnar koma frá Landhelgisgæslu Íslands, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Isavia, Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Umhverfisstofnun, Utanríkisráðuneytinu og Innanríkisráðuneytinu.  

Æfingin er þáttur í að styrkja enn frekar samstarf leitar- og björgunaraðila innan Norðurheimskautsráðsins og gera þjóðirnar betur í stakk búnar til að takast á við leit- og björgun á Norðurslóðum. Reglulega eru haldnar æfingar á vettvangi, svo sem Sarex Greenland Sea,  m.a. með þátttöku skipa og flugvéla en einnig er þörf á að halda skrifborðsæfingar sem þessa þar sem meiri áhersla er lögð á störf innan björgunarmiðstöðva, tengsl þeirra á milli, miðlun og greiningu upplýsinga.


Staðsetning Íslands er afar mikilvæg á þessum vettvangi og er virk þátttaka því lykilatriði, að vera upplýst um björgunareiningar á svæðinu og hvernig best er að haga viðbragði allra sem að slíku verkefni koma. Leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara afmarkast á hverjum tíma í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og tilkynntar hafa verið til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og Alþjóðaflugmála­stofnunarinnar (ICAO).

Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leitar- og björgunarþjónustu á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu vegna sjófarenda og stjórnar auk þess leit og björgun vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað, Isavia annast viðbúnaðarþjónustu vegna loftfara og er í nánu samstarfi við Landhelgisgæsluna vegna þess. Landhelgisgæslan samhæfir leitar- og björgunarstörf allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafinu og sér auk þess um vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu.


Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar segir frá hlutverki stofnunarinnar

Myndir úr æfingunni Sarex Greenland Sea 2012 og 2013


Fallhlífarstökkvarar flugbjörgunarsveitarinnar stökkva úr TF-SIF yfir Grænlandi


Björgunaraðilar að störfum á Grænlandi

IMG_9739
Varðskipið Þór tók þátt í Sarex Greenland Sea árið 2012 en varðskipið Týr árið 2013.