Sjúkraflug Lífar vegna slasaðrar konu í Borgarfirði

Mánudagur 10. október 2005.

Læknir í Borgarnesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gegnum Neyðarlínuna kl. 19:49 á laugardagskvöldið vegna sextugrar konu sem hafði fallið niður stiga á sveitabæ á Mýrum. Konan hafði fengið höfuðáverka og var meðvitunarlítil.  Læknir í áhöfn þyrlunnar Lífar taldi nauðsynlegt að sækja konuna með þyrlu eftir að hann hafði fengið upplýsingar um ástand hennar og var áhöfn Lífar kölluð út kl. 19:53.  

Líf fór í loftið kl. 20:20 og sjúkrabíll fór af stað með konuna áleiðis á móti þyrlunni.  Líf lenti við Bretavatn, norðnorðvestur af Borgarnesi, kl. 20:39 þar sem konan var flutt yfir í þyrluna.  Líf lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 21:01.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.