Björgunaræfingar flugáhafna í Aberdeen

Fimmtudagur 6. október 2005.

Eins og gefur að skilja þurfa flugáhafnir Landhelgisgæslunnar að vera í stöðugri þjálfun til að vera reiðubúnar að sinna björgunarstörfum við erfiðar aðstæður úti á hafi og einnig er nauðsynlegt fyrir starfsmenn í flugáhöfnum að kunna að bjarga sjálfum sér við slíkar aðstæður.

Í því skyni fara flugáhafnir á tveggja ára fresti til Aberdeen í þjálfun í að bjarga sér úr sökkvandi þyrlu.  Einnig eru starfsmenn þjálfaðir í að nota loftflöskur og að bjarga sér um borð í gúmmíbjörgunarbáta við erfiðar aðstæður.  Til samanburðar má geta þess að starfsmenn olíuborpalla í Norðursjó verða reglulega að fara í samskonar þjálfun til að viðhalda réttindum sínum.

Æfingarnar fara fram hjá fyrirtækinu Nutec í Aberdeen.  Fyrst er byrjað á venjulegum björgunaræfingum, björgunarsundi með mismunandi aðferðum, æfingu í að komast upp í björgunarbáta og helstu aðferðum sem nota á þegar skip eða þyrla sekkur.  Menn eru æfðir í að komast í björgunarvesti í sjó og þegar hópurinn er kominn upp í björgunarbáta eru tveir í áhöfn látnir róa bátnum þar til komið er að krana sem hífir alla upp í björgunarlykkju.  Reynt er að líkja eftir aðstæðum á sjó með því að framkalla öldugang og hávaða, slökkva ljósin og sprauta á menn með háþrýstislöngum þegar þeir eru að reyna að bjarga sér.

Eftir að hefðbundnum björgunarbátaæfingum er lokið er hópnum skipt í tvennt.  Annar æfir sig í að nota loftflösku í vatninu á meðan hinn fer í þyrlulíkan sem er hvolft í sundlauginni.  Loftflöskurnar eru litlar og duga aðeins skamma stund á meðan menn eru að bjarga sér út úr þyrlunni. Lokastig æfingar í þyrlulíkani felst í því að mönnum er sökkt í líkaninu ofan í laugina, líkanið er látið snúast í hálfan hring og síðan fyllist það af vatni.  Við þær aðstæður þurfa menn að bjarga sér út úr því og tókst öllum það bærilega í þessari ferð.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri kominn upp á gúmmíbjörgunarbátinn sem er á hvolfi en þá á hann eftir að snúa honum við.


Aftari röð frá vinstri: Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild, Sigurður Heiðar Wiium þyrluflugmaður og Gísli E. Haraldsson læknir. Fremri röð: Sverrir Erlingsson flugvirki og Viggó M. Sigurðsson kafari, starfsmaður í sprengjudeild.  Á stönginni er Jakob Ólafsson þyrluflugstjóri æfður í því að fara afturábak í kaf og nota loftflöskuna á hvolfi í lauginni.


Gaman, gaman! Sverrir er greinilega í banastuði í lauginni.


Stund milli stríða.  Auðunn  F. Kristinsson yfirstýrimaður, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Þengill Oddsson læknir og Gísli E. Haraldsson læknir.


Komnir inn í þyrlulíkanið. Nú fer að versna í því.


Þyrlulíkanið fer á bólakaf, og snýst í hálfhring í vatninu og fyllist af vatni. Við þessar aðstæður er hætt við að menn ruglist í ríminu en allir komust þó heilir frá þessu.


Eftir volkið skellir maður sér í sturtu. Björn Brekkan Björnsson flugrekstrarstjóri gætir þó fyllsta velsæmis á meðan myndatökumenn eru á stjái.