Hvalaskoðunarskip strandaði á Skjálfanda

  • _MG_0632

Miðvikudagur 2. júlí 2014

Landhelgisgæslunni barst kl. 17:58 aðstoðarbeiðni frá hvalaskoðunarskipinu Hauki sem strandaði við Lundey á Skjálfanda. Um borð voru nítján farþegar ásamt tveggja manna áhöfn. Landhelgisgæslan hafði samband við nærstödd skip og báta sem voru beðin um að stefna á staðinn auk þess sem björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu voru kölluð út. Tveir hraðskreiðir harðbotna bátar héldu samstundis á staðinn og klukkan 18:27 hafði öllum verið bjargað frá borði óhultum.

Viðbragðsáætlun vegna sjóslysa á Skjálfanda var virkjuð og viðeigandi bjargir boðaðar í samræmi við áætlunina.

Björgunarsveitarmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Húsavík eru nú á vettvangi ásamt hvalaskoðunarskipinu Knörrinn og meta aðstæður. Að því loknu verður tekin ákvörðun um framhaldið.