Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við verkefni á Grænlandsjökli

Fimmtudagur 17. júlí 2014

Landhelgisgæslan mun í sumar halda áfram sérverkefni sem felst í aðstoð við að bjarga líkamsleifum áhafnar bandarískrar björgunarflugvélar sem fórst fyrir 70 árum á Grænlandsjökli. Til viðbótar við þyrlu Landhelgisgæslunnar eru notuð skip og grænlenskar þyrlur en að verkefninu standa bandaríkjaher, bandaríska strandgæslan og skyldar stofnanir.

Á Grænlandsjökli er unnið að því að grafa upp flak bandarískrar sjóflugvélar af tegundinni Grumman J2F Duck sem fórst þegar hún var í leitarflugi fyrir rúmum 70 árum. Ekkert var vitað um flugvélina þar til flakið fannst árið 2012, með aðstoð fullkomins ratsjárbúnaðar. Flakið er staðsett á 11 metra dýpi í jöklinum og hófst vinna við uppgröftinn síðastliðið sumar og var þá þyrla Landhelgisgæslunnar fengin í verkefnið.

Fjögurra manna áhöfn fylgir þyrlunni en gert er ráð fyrir að farnar verði fimm stuttar ferðir á TF-LÍF eða TF-SYN.  Verkefni þyrlu Landhelgisgæslunnar felst í að flytja mannskap og búnað milli Kulusuk og staðarins þar sem flak flugvélarinnar er staðsett, í um 50 mínútna fjarlægð eða um 100 mílur sunnan við Kulusuk.  

Sjá frétt frá sl. ári. Fréttinni fylgja myndir sem Árni Sæberg ljósmyndari tók í leiðangrinum. 

Hér eru myndir sem áhöfn TF-LIF tók í vikunni.


Búnaður ferjaður úr skipi sem sigldi nærri búðum leiðangursmanna


Þrjár þyrlur voru fengnar til að sinna verkefninu


Mynd Árni Sæberg 2013


Mynd Árni Sæberg 2013





Leiðangursmenn fluttir á staðinn