Flugtæknideild Landhelgisgæslunnar fær EASA vottun - merkisdagur í sögu Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 23. september 2005.

Í dag hlaut flugtæknideild Landhelgisgæslunnar formlega EASA-vottun frá Flugmálastjórn Íslands. við það tækifæri hélt Oddur Garðarsson tæknistjóri flugdeildar eftirfarandi ræðu í kaffisamsæti sem haldið var í tilefni dagsins:


Á þessu ári stendur fluggæslan á margvíslegum tímamótum.  Í ár eru 50 ár liðin frá því Landhelgisgæslan hóf flugrekstur, en hinn 10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél.  Það var Katalínaflugbátur sem hlaut einkennisstafina TF RAN.  Frá þeim tíma hefur Landhelgisgæslan óslitið stundað flugrekstur og jafnframt annast viðhald flugflota síns. 

 

Það eru 20 ár síðan við fengum TF SIF og 10 ár síðan við fengum TF LIF

 

Og að lokum er það EASA Part 145 vottun á starfsemi flugtæknideildar, sem við erum að fá og það er af því tilefni, sem við erum hér saman komin í dag.  

 

Við sem störfum í flugtæknideildinni teljum þetta heilmikinn áfanga í starfseminni.

 

Það hefur ekki farið mikið fyrir flugtæknideild Landhelgisgæslunnar í almennri umræðu og þannig viljum við reyndar hafa það.  Það er ekki nema helst ef eitthvað fer úrskeiðis eða þá að menn kvarta undan því hve dýrt viðhald flugflotans er að kastljósið beinist að okkur.  

 

Við erum engu að síður hlekkur í keðju, sem allir landsmenn eru sammála um að þurfi að vera sterk og þessi vottun, sem við erum nú að taka á móti er sterk vísbending um að hlekkurinn okkar sé að styrkjast.

 

Flugtæknideildin sér um að viðhalda flugflota Landhelgisgæslunnar svo að tækin séu til taks helst alltaf þegar þörf krefur.  Þetta eru flókin tæki, fokdýr og það þarf að hafa sívökult auga með þeim, svo þau sinni þeim verkum, sem þeim eru ætluð þegar á reynir. 

 

Landhelgisgæslan á því láni að fagna að hafa á umliðnum árum getað laðað til sín vel mentað, metnaðarfullt og dugmikið starfsfólk, sem er ekkert feimið við að láta í sér heyra, þegar á þarf að halda  til að  annast viðhald flugflotans af kostgæfni. 

 

Það er í raun ekkert sjálfgefið og við megum aldrei gleyma því að hlúa að starfsfólkinu, og búa því aðstæður svo það geti unnið störf sín sem allra best.

Sérhæfingin í starfseminni er mikil og tekur það mörg ár að þjálfa hvern starfsmann og það jafnt við um faglært og ófaglært starfsfólk.

 

Við þurfum ekkert að fara langt til að finna dæmi þess að menn hafi gefist upp við að halda þyrlum eins og okkar gangandi.

 

EASA er skammstöfun fyrir European Aviation Safety Agency, eða Flugöryggisstofnun Evrópu.  Stofnunin hefur það meginmarkmið að stuðla að bættu öryggi í almannaflugi og verndun umhverfisins.  EASA Part 145 er reglugerðabálkur, sem fjallar um kröfur, sem gerðar eru til viðurkenndra viðhaldsstöðva loftfara (flugvélaverkstæða) í atvinnuflugi.

 

Sú krafa er gerð (til að tryggja öryggi) til allra flugrekstrarleyfishafa, í ríkjum sem aðild hafa að EASA  að viðhaldsstöð með EASA Part 145 vottun sjái um viðhald véla þeirra. Aðild Íslands var staðfest með lögum frá alþingi og gengu í gildi í júní sl.

 

Þar sem Landhelgisgæslan er ekki handhafi flugrekstrarleyfis, eru viðlíka kröfu ekki gerðar um flugstarfssemi hennar.  Sú krafa er hinsvegar gerð til flugflota og flugáhafna gæslunnar að hún sé jafnan til taks, þegar neyð steðjar að,  og þá oft við skilyrði, þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar og veður válynd.  Jafnframt eru tækin tæknilega flókin og viðkvæm.

 

Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur LHG segir í nýlegri ritgerð sinni til meistaraprófs í sjávarútvegsfræðum með leyfi höfundar: 

 

Þar sem Landhelgisgæslan hefur ekki flugrekstrarleyfi fellur starfsemi Landhelgisgæslunnar ekki undir nákvæmt eftirlit Flugmálastjórnar sem slíku leyfi fylgir.  Engar sérstakar reglur gilda um flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar fyrir utan almenn ákvæði laga um loftferðir nr. 60/1998 og laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 25/1967. 

 

Fleiri rök styðja þessa fullyrðingu.  Á síðari hluta ársins 1985 gerði loftferðaeftirlitið úttekt á flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar og í kjölfarið var gefin út  skýrsla dagsett þann 28. febrúar 1986 og bar yfirskriftina “Könnun loftferðaeftirlitsins á flugdeild Landhelgisgæslunnar.”   Undir skýrsluna rita Grétar H. Óskarsson þáv. framkvæmdastjóri loftferðaeftirlitsins, Björn Björnsson þáv. deildarstjóri lofthæfideildar og Skúli Jón Sigurðarson þáv. deildarstjóri rannsóknardeildar lofthæfideildar.   Í skýrslunni er bent á ýmislegt, sem  betur mætti fara í flugrekstri gæslunnar og  niðurlagi skýrslunnar segir orðrétt:

 

 “ekki hefur legið skýlaust fyrir, hvort og að hve miklu leyti flugrekstur Landhelgisgæslunnar fellur undir valdsvið flugmálastjórnar lög/loftferðaeftirlitsins og að hve miklu leyti LHG beri að fara eftir lögum um loftferðir og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Úr þessu þarf að fást skorið á ótvíræðan hátt.”

 

Segja má að Flugmálastjórn hafi látið flugstarfsemi LHG að mestu afskiptalausa frá því þessi  skýrsla var birt þar til í upphafi árs 2002 að Flugmálastjórn kom í heimsókn og gerði vettvangskönnun á starfsemi flugtæknideildar, u.þ.b. 16 árum síðar.  Ég get ekki neitað því að heimsóknin kom okkur dálítið á óvart og  fyrstu viðbrögð okkar voru að spyrja okkur sjálfa hvað þeir væru eiginlega að vilja upp á dekk!

 

En eins og flestum má ljóst vera þá er engum hollt að ganga sjálfala og eftirlitslaus of lengi, og þegar við horfum til baka sjáum við mæta vel að við höfðum dregist aftur úr þróuninni.

 

Þegar hér var komið sögu hafði gæðastjórinn okkar Þorkell Guðmundsson  þegar hafist handa við að kynna sér JAR reglugerðirnar og var hann kominn vel á veg við að móta verklagsreglur fyrir starfsemina og skrifa gæðahandbók (MME bókin).  Stuðst var við gögn  fyrirtækja í sambærilegum rekstri m.a. á Norðurlöndunum.  Haft var að leiðarljósi að bókin skyldi verða raunsönn lýsing á starfseminni eins og við vildum hafa hana.  Það lá þó engin ákvörðun fyrir um að Gæslan ætlaði sér að biðja um vottun.  Menn voru heldur ekki á einu máli um að það væri þörf á að aðlaga starfsemina þessum reglum, því það var jú engin krafa um slíkt. 

 

Það var svo á fyrri hluta árs 2003 að ákvörðun var tekin um að sótt yrði um starfsleyfi skv. JAR 145 reglugerðinni fyrir flugtæknideild LHG og sendi þáverandi forstjóri Hafsteinn Hafsteinsson flugmálastjórn ósk um að úttekt yrði gerð á starfseminni í júní 2003.   

 

Starfsmenn tæknideildar hafa síðan jafnframt daglegum störfum sínum lagt hart að sér við að aðlaga starfsemina að JAR kröfunum,  nú EASA. Þetta hefur verið yfirgripsmikið verkefni, sem hefur tekið á öllum þáttum starfsemi okkar. 

 

Starfslýsingar hafa verið skráðar og verksvið hvers starfsmanns afmarkað, svo skýrt sé hvaða verk hann megi inna af hendi.

 

Verklagsreglum hefur verið komið á um þjálfunar- og menntunarkröfur starfsfólks.

 

Varahlutalagerinn hefur verið marg yfirfarinn og þeir hlutir fjarlægðir, sem ekki hefur verið unnt að tryggja rekjanleika nægilega vel fyrir. 

 

Öll verkfæri hafa verið yfirfarin og skráð og öll mælitæki, sem við notum við störf okkar hafa verið prófuð af þar til bærum aðilum og vottuð. 

Komið hefur verið upp getulista (capability list), svo ljóst sé hvaða verk við ráðum við og hvaða verk við þurfum að leita til utanaðkomandi aðila við að framkvæma.

 

Vottunin, sem við erum að taka á móti í dag er staðfesting þess að starfsemin uppfyllir  skilyrði EASA Part 145 reglugerðarinnar og höfum yfir að ráða gæðakerfi, sem tryggir að farið sé eftir ákvæðum reglugerðarinnar.  

 

Jafnframt tekst Flugmálastjórn á hendur eftirlitshlutverk á starfsemi flugtæknideildarinnar.  Þeir koma til með að gera úttektir a.m.k. árlega en ekki á 16 ára fresti.

 

 Við fögnum því og teljum það koma til með að veita okkur aðhald og stuðla að öryggi.

 

Oft hafa spunnist fjörugar umræður og menn tekist á um túlkun reglugerðanna og verklag og sitt sýnst hverjum.

 

Jákvæðni og metnaður starfsmanna tæknideildar  í þessu uppbyggingarstarfi hefur vakið athygli og höfðu starfsmenn flugmálastjórnar orð á því eftir loka úttekt sína. 

 

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ykkur öllum samstarfsmönnum mínum óbilandi áhuga og þrautseigju í því að gera þetta mögulegt.   Ég er stoltur af ykkur.   

 

Jafnframt þakka ég starfsmönnum flugöryggissviðs Flugmálastjórnar samstarfið og jafnframt fyrir hvatningu, stuðning og handleiðslu í þessu ferli öllu.

 


Oddur Garðarsson tæknistjóri í ræðupúlti. Á bak við hann standa Hilmar Ægir Þórarinsson yfirflugvirki, Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Daníel Hjaltason flugvirki, Reynir G. Brynjarsson flugvirki, Ragnar Ingólfsson rafeindavirki, Jón Pálsson flugvirki, Sigurjón Sigurgeirsson flugvirki og Þorkell Guðmundsson gæðastjóri.


Í tilefni dagsins var starfsmönnum Landhelgisgæslunnar boðið í kaffi í flugskýli Landhelgisgæslunnar ásamt fulltrúum Flugmálastjórnar sem afhentu vottunarskírteinið en það voru þeir Pétur K. Maack framkvæmdastjóri flugöryggissviðs og Sigurjón Sigurjónsson deildarstjóri.


Sólmundur Már Jónsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs mættur á svæðið.


Ragnar Ingólfsson radíóflugvirki, Sigurjón Sigurgeirsson flugvirki, Jón Pálsson flugvirki, Helgi Rafnsson flugvirki og Sigurjón Sigurjónsson deildarstjóri frá Flugmálastjórn.


Dagmar lögfr., Inga Hanna starfsmannastjóri og Eygló Ólöf launafulltrúi.