Þrjú útköll sama daginn - Tvö sjúkraflug þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar út á land og út á haf

Miðvikudagur 21. september 2005.

 

Áhöfn Sifjar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í þrígang í gær og var einnig í viðbragðsstöðu vegna neyðarsendinga sem bárust um gervihnött. 

Fyrsta útkallið var vegna neyðarkalls frá skipstjóra Þjóðbjargar, sem sagt var frá í fréttatilkynningu í gær.  Þyrlan kom á staðinn um svipað leyti og bátar sem höfðu verið í grenndinni og hélt til baka til Reykjavíkur þegar tryggt var að skipstjórinn var ekki í hættu.  Þetta gerðist milli kl. 9 og 10 í gærmorgun. 

 

Neyðarlínan gaf síðan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við lögreglu á Blönduósi kl. 11:35 en lögreglan óskaði eftir þyrlu í samráði við lækni á svæðinu vegna manns á sveitabæ í Hrútafirði sem hafði fengið metangaseitrun og var meðvitundarlaus.  Beðið var um að þyrlan kæmi á móti sjúkrabíl sem sendur hafði verið af stað með manninn.  Áhöfn Lif  flutti manninn á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi en þar lenti þyrlan kl. 13.

 
Næst var þyrluáhöfnin kölluð út með bráðaútkalli kl. 19:36 vegna sjómanns um borð í skipinu Ósk KE-5, en talið var að hann væri með botnlangakast.  Skipið var þá statt rétt utan við Faxaflóa eða 15 sjómílur norðvestur frá Reykjavík.

Sif fór í loftið kl. 19:58.  Vel gekk að ná sjómanninum um borð í þyrluna og lenti Sif á Reykjavíkurflugvelli við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 20:32.  Þangað kom sjúkrabíll sem flutti sjómanninn á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. 

Talið er líklegt að það hafi bjargað lífi mannsins að hægt var að sækja hann með þyrlu enda kom síðar í ljós að hann var með rifna ósæð en ekki sprunginn botnlanga eins og í fyrstu var talið.


Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.