Umfangsmiklar aðgerðar Landhelgisgæslunnar um liðna helgi vegna strands Akrafells

Mánudagur 8. september 2014

Björgunaraðgerðir Landhelgisgæslunnar vegna strands flutningaskipsins Akrafells síðastliðinn laugardag voru afar umfangsmiklar og kom fjöldi manna úr nánast öllum deildum Landhelgisgæslunnar að málum.   Var samvinna og liðsheild starfsmanna einstök og sýndu viðbrögð þeirra að starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru tilbúnir að gera það sem þarf til að bregðast við á ögurstundu í stóru sem smáu. 

Að verkefninu komu tvö varðskip, flugvél, tvær þyrlur, kafarar, stjórnstöð, sjómælingar og aðgerðastjórn svo eitthvað sé nefnt, auk björgunarsveita á Austfjörðum, nærliggjandi skipa, hafnarstarfsmanna og fjölda annarra.  Í rekstraráætlun Landhelgisgæslunnar fyrir árið 2014  er meginmarkmið í skiparekstri að ávallt sé eitt skip til taks til að sinna leit, björgun, eftirliti og öryggisþjónustu á hafinu við Ísland.  Vegna samdráttar í rekstri undanfarin ár hefur úthaldsdögum varðskipa fækkað en leitast er við að tryggja að ávallt sé varðskip til taks.  Fyrr á árum voru almennt tvö til þrjú varðskip til taks hverju sinni en vegna samdráttar hefur reynst nauðsynlegt að fækka verulega í áhöfnum.  Á sama tíma hefur fjareftirlit verið aukið og þannig leitast við að tryggja eins og kostur er viðunandi eftirlit og löggæslu á hafinu við landið.  Landhelgisgæslan er nú með tvö skip í rekstri og er úthald þeirra skipulagt með tilliti til verkefna hverju sinni, nauðsynlegs viðhalds, þjálfunar áhafna og fleira.  Um helgina var varðskipið Ægir viðbragðsskip og var það við eftirlit fyrir norðurlandi.  Vegna umfangs verkefnisins og mögulegrar mengunarhættu var ákveðið að kalla starfsmenn úr fríi til að manna varðskipið Þór sem var í höfn í Reykjavík.  Gekk einstaklega vel að manna allar stöður og hélt varðskipið úr höfn eftir hádegi á laugardag.

Landhelgisgæslan vill þakka björgunarsveitum, nærliggjandi skipum, slökkviliðsmönnum, áhöfn Aðalsteins Jónssonar og lóðsbátsins Vattar, hafnarstarfsmönnum, lögreglu og öðrum sem að aðgerðum komu fyrir frábært samstarf við aðgerðir en þessir aðilar eru nauðsynlegur hluti af viðbragðskerfi landsins. 

Hér er yfirlit sem sýnir helstu þætti í aðgerðum Landhelgisgæslunnar við björgun Akrafells:

Flutningaskipið Akrafell sendir neyðarkall og tilkynnir um að það sé strandað kl. 04:50 á laugardagsmorgun.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallar þá út þyrlu, björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi, bað nærstödd skip og báta um að halda á staðinn og upplýsti hlutaðeigandi aðila. Einnig var varðskipinu Ægi gert að halda með fullum hraða á vettvang en varðskipið var við eftirlit við Norðurland. Fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson-SU, var beðið um að halda á staðinn en það var statt um 7,5 sjómílur frá strandstað.  Í ljósi þess að sjávarstaða fór hækkandi á þessum tíma, óskaði Landhelgisgæslan sem lögum samkvæmt fer með stjórn aðgerða, eftir að dráttartaug yrði komið á milli Aðalsteins Jónssonar og Akrafells.  Klukkan 07:09 var dráttartaug komin úr Aðalsteini Jónssyni yfir í Akrafell. Voru þeir tilbúnir að draga Akrafell utar ef skipið losnaði við hækkaða sjávarstöðu. Dælur voru fluttar um borð í skipið og um svipað leyti var björgunarskipinu Hafbjörg frá Neskaupstað falin vettvangsstjórn.  Lét þá Landhelgisgæslan einnig flytja alla þá sem ekki var nauðsynlegt að hafa um borð í Akrafelli yfir í Aðalstein Jónsson.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF var komin á strandstað kl. 07:21.  Eftir að hafa kannað hvort einhver mengun væri sjáanleg fór stýrimaður þyrlunnar um borði í Akrafellið með dælur og tók hann við stjórn aðgerða um borð í skipinu.  Um svipað leyti komu björgunarsveitir einnig með dælur og var hafist handa við að dæla úr skipinu.  Sjór var þá kominn upp fyrir vél og höfðu dælur ekki undan.  Þyrlan TF-SYN var einnig send á staðinn með kafara séraðgerða- og sprengjueyðingasviðs Landhelgisgæslunnar til að kanna skemmdir á skipinu ásamt köfurum varðskipsins Ægis. Þá var einnig strax tekin sú ákvörðun að kalla út starfsmenn úr fríum til að manna varðskipið Þór sem var í höfn í Reykjavík. Þór er aflmeiri en Ægir með meiri stjórnhæfni, auk þess að vera búinn mengunarhreinsibúnaði. 

Varðskipið Ægir kom á staðinn um hádegi og tók þá við vettvangsstjórn af björgunarskipinu Hafbjörgu.  Áhöfn Ægis fór um borð í Akrafell og var unnið skipulega við krefjandi aðstæður.  Kafarar Landhelgisgæslunnar tóku til við að kanna botn Akrafells og var ákveðið að freista þess að kafa niður í vélarrúm skipsins til að loka fyrir lúgu inn í rými þar sem mesta tjónið virtist vera.  Tókst köfurunum að loka lúgunni og fóru þá dælur loks að hafa undan. Unnu kafarar Landhelgisgæslunnar þrekvirki við erfiðar aðstæður og lögðu sig í umtalsverða hættu til að forða skipinu frá að sökkva.

Um hádegisbil á laugardag var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF send á strandstað til að kanna svæðið með mengunareftirlitsbúnaði.  Var engin mengun sjáanleg.  Auk þess fór vélin með fulltrúa eigenda skipsins og Umhverfisstofnunar austur. 

Fram eftir laugardegi unnu varðskipsmenn ásamt björgunarsveitarfólki, slökkviliðsmönnum og öðrum björgunaraðilum á Austfjörðum að því að dæla sjó úr skipinu og þétta rými til að hefta frekari leka í skipinu.  Þá var jafnframt unnið að því að koma mengunarvarnarbúnaði Umhverfisstofnunar og Reyðarfjarðarhafnar á staðinn.  Miðuðust aðgerðir við það að koma í veg fyrir mengun og að undirbúa skipið til að vera dregið af strandstað.

Um níuleytið að kvöldi laugardags var ljóst að skipið var að losna af strandstað og ákvað Landhelgisgæslan þá að með hækkun sjávarfalls myndi fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson og lóðsbáturinn Vöttur freista þess að draga skipið af strandstað.  Af öryggisástæðum var björgunaraðilum fækkað um borð í Akrafelli og urðu varðskipsmenn ásamt fulltrúum eiganda eftir í skipinu.  Varðskipsmenn héldu dælum gangandi og stýrðu aðgerðum um borð en Ægir var til taks með mengunargirðingu meðan á þessu stóð.  Haldið var með skipið til hafnar á Eskifirði.  Þangað var komið um fimmleytið á sunnudagsmorgun.  Í siglingunni inn á Eskifjörð var fjölgað dælum um borð til að tryggja eins og kostur var að skipið héldist á floti. 

Í aðgerðunum urðu tveir úr áhöfn Ægis og fjórir björgunarsveitarmenn fyrir reykeitrun en þeir eru nú á batavegi.

Allar aðgerðir Landhelgisgæslunnar taka mið af lögum um verndun gegn mengun hafs og stranda og viðbragðsáætlunum Landhelgisgæslu, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu.  Meðan á aðgerðum stóð voru haldnir reglulegir samráðsfundir Landhelgisgæslunnar með fulltrúum Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu, Samskipa, Hafrannsóknastofnunar, Ríkislögreglustjóra og tryggingafélags skipsins og var samstarf allra hlutaðeigandi einstaklega gott.