Flutningaskip áminnt fyrir að fara ekki eftir reglum um aðskildar siglingaleiðir fyrir Reykjanes

  • _MG_0659

Þriðjudagur 16. september 2014

Landhelgisgæslunni barst í gær tilkynning frá erlendu flutningaskipi sem var að leggja úr höfn frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Skipinu voru veittar þær upplýsingar að vegna stærðar skipsins (yfir 5000 tonn) var því aðeins heimilt að sigla ytri siglingaleið fyrir Reykjanes. Vegna tungumálaörðugleika voru skipinu auk þess sendar reglur og upplýsingar rafrænt um aðskildar siglingaleiðir.

Tveimur klukkustundum síðar hafði Landhelgisgæslan samband við skipið þar sem það sást í ferilvöktunarkerfum stefna innri siglingaleiðina fyrir Reykjanes. Vakthafandi stýrimaður kannaðist ekki við upplýsingar sem voru gefnar og sendar skipinu fyrr um daginn. Skipið var áminnt fyrir að vera ekki með uppfærð siglingakort og hafa ekki kynnt sér siglingaleiðir innan svæðisins. Reglur um aðskildar siglingaleiðir miða að því að auka siglingaöryggi og vernda efnahagslega og líffræðilega mikilvægar slóðir á hafsvæðinu. Það er gert með því að beina skipaumferð á afmarkaðar öruggar siglingaleiðir og takmarka umferð skipa yfir þeim stærðarmörkum sem tiltekin eru í reglugerðinni og skipa sem flytja hættulegan og mengandi farm um viðkvæmt hafsvæði.

Sjá reglugerð.


Siglingaferill skipsins