Unnið að uppsetningu mengunargirðingar - samráðsfundur að hefjast

  • NC2009_WEEKEND_DIVE_DOUG_ELSEY_PHOTO__42

Fimmtudagur 18. september 2014 kl. 9:55

Samkvæmt vettvangsstjórn Landhelgisgæslunnar á strandstað Green Freezer er nú unnið að uppsetningu mengunargirðingar umhverfis skipið þar sem hugsanlegt er að olía hafi lekið þegar stýrisbúnaður skipsins laskaðist við strandið. Var því frestað að draga skipið af staðnum meðan kafarar Landhelgisgæslunnar kanna botn skipsins og viðbragðsaðilar meta stöðuna. Skipið er stöðugt og ágætt veður er á staðnum.

Samráðsfundur Landhelgisgæslunnar með Umhverfisstofnun og Samgöngustofu hefst kl. 10:00 og verður í framhaldinu tekin ákvörðun um næstu skref en björgunaraðgerðir eru unnar í nánu samráði við Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, útgerð skipsins, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, lögreglu og aðra viðbragðsaðila á svæðinu.

Varðskipið Þór siglir nú með auknum hraða á staðinn og er gert ráð fyrir að það verði komið í kvöld en skipið var við eftirlit á Vestfjarðamiðum þegar útkallið barst.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Fáskrúðsfirði rétt eftir miðnætti í nótt með fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar. Tók þá Landhelgisgæslan við vettvangsstjórn  af Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Fragtskipið Green Freezer er skráð á Bahama eyjum og með 17 manna áhöfn.