Undirritaður samningur um kaup á íslenskum bát

  • Leiftur3

Laugardagur 29. nóvember 2014

Landhelgisgæslan undirritaði nýverið samning við íslensku skipasmíðastöðina Rafnar ehf. um kaup á harðbotna slöngubát (e. RIB, Rigid-Inflatable Boat) sem mun nýtast við leit og björgun æfingar, löggæslu og fiskveiðieftirlit á grunnslóð. Allt frá árinu 2012 hefur Landhelgisgæslan tekið þátt í nýsköpunar- og þróunarstarfi fyrirtækisins en Rafnar (áður OK Hull) hafði frá árinu 2005 unnið að nýju skrokklagi sem áfram var unnið með. Skrokklagið sparar eldsneyti, fer betur í sjó og hefur almennt mýkri hreyfingar en bátar sem áður hafa verið í notkun hjá Landhelgisgæslunni. Um er að ræða skrokk sem notar minni orku og nær meiri hraða við erfiðar aðstæður en áður hefur þekkst. Áætlað er að báturinn verði afhentur í byrjun sumars 2015.

Þróunarstarfið hefur falist í því að Landhelgisgæslan hefur haft í prófunum ýmsar tegundir harðbotna slöngubáta frá Rafnar og notað þá við ýmsar ólíkar aðstæður. Hafa þeir nýst við ýmsar æfingar innan LHG og með samstarfsaðilum, við fiskveiðieftirlit á sumrin með Fiskistofu þar sem siglt hefur verið allt frá Reykjanesi norður á Skjálfanda, við leit og björgun og hafnareftirlit. Sá lærdómur hefur verið tekinn inn í áframhaldandi þróunarvinnu, síðast með bátnum Leiftri sem Landhelgisgæslan hefur haft til afnota síðastliðið ár og hefur hann reynst afar vel.  

Fyrir Landhelgisgæsluna er afar ánægjulegt að fá tækifæri til að styðja við íslenska nýsköpun með þessum hætti. Starfsmenn hennar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu þegar kemur að verkefnum til sjávar og hefur samstarfið við Rafnar gengið sérstaklega vel.