Hefur tekið við starfi fjármálastjóra

Fimmtudagur 18. desember 2014

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir tók í dag tímabundið við starfi fjármálastjóra hjá Landhelgisgæslu Íslands af Ólafi Erni Ólafssyni sem nýverið óskaði eftir að láta af störfum. Sandra Margrét á að baki mikla og margþætta reynslu og hlakkar hún til að takast á við krefjandi verkefni í fjölbreytilegu umhverfi Landhelgisgæslunnar en hún lýkur í vor meistaranámi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Sandra Margrét  er fædd og uppalin á Akranesi, viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist af reikningshalds- og endurskoðunarsviði Háskóla Íslands árið 2000.  Sandra Margrét á að baki langan og góðan feril og starfaði í sex ár sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Norðurál þar sem hún bar meðal annars ábyrgð á fjármálastjórnun fyrir þrjár rekstrareiningar Norðuráls á Íslandi ásamt rafskautaverksmiðju í Hollandi.  Þá hefur Sandra Margrét tekið þátt í margvíslegum félagsstörfum og setið í stjórn meðal annars lífeyrissjóðs.

Landhelgisgæsla Íslands býður Söndru Margréti hjartanlega velkomna í hópinn.