Varðskipið Týr tekur þátt í björgunaraðgerð á S - Jónahafi

Fimmtudagur 1. janúar 2014

Varðskipið Týr var í dag kallað til aðstoðar við björgun 400 flóttamanna, þar af 60 barna, sem stödd eru um borð í vélarvana flutningaskipi á Suður Jónahafi sem rekur í átt að strönd Pugliu á Ítalíu. Varðskipið tekur þátt í aðgerðum undir merkjum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins en aðgerðir fara fram undir stjórn björgunarstjórnstöðvarinnar í Róm. Auk varðskipsins Týs taka þyrlur ítölsku strandgæslunnar þátt í björguninni. 

Fjórir menn frá varðskipinu eru nú komnir um borð í skipið auk manna frá ítölsku strandgæslunni. Mjög slæmt veður er á svæðinu sem gerir björgunaraðilum erfitt fyrir. Reynt verður að koma vélum skipsins í gang og næstu skref verða metin í samræmi við árangur þess. Ekki er vitað á þessari stundu hvert haldið verður með skipið til hafnar.