Varðskipið Týr með flutningaskipið í togi - um borð eru yfir 400 flóttamenn

Föstudagur 2. janúar 2014

Varðskipið Tyr heldur nú til suður Ítalíu með flutningaskipið Ezadeen í togi en yfir 400 flóttamenn eru um borð í Ezadeen.

Týr kom að skipinu um kl. 20:00 í gærkvöldi út af Taranto flóa á suður Ítalíu en þá stefndi skipið til lands á fullri ferð en áhöfnin hafði yfirgefið skipið. Varðskipsmönnum tókst að komast um borð þrátt fyrir erfiðar aðstæður en um 40 hnúta vindur og krappur sjór var í gærkvöldi á svæðinu. Skömmu síðar komu sex menn frá ítölsku strandgæslunni einnig um borð með þyrlum.

Yfir 400 flóttamenn eru um borð, þar af yfir 60 börn og voru þau matar- og vatnslítil eftir langa veru á sjó. Ágætt ástand er nú á fólkinu en varðskipsmenn hafa ásamt mönnum ítölsku strandgæslunnar sinnt slösuðum, gefið fólkinu mat og vatn. Skipið var tekið í tog og halda þau nú áleiðis til Ítalíu. Skipin eru væntanleg til land seinnipartinn í dag en ferðin sækist seint sökum veðurs.

Er þetta sjötta árið sem Landhelgisgæslan tekur þátt í verkefnum Frontex-Landamærastofnunar EU. Týr sigldi úr höfn á Íslandi þann 20. nóvember og hóf störf 1. desember. Frá þeim tíma hefur varðskipið komið að fjórum björgunaraðgerðum þar sem hátt í 2000 manns hefur verið bjargað.