Bandaríska strandgæslan hélt námskeið um skipulagningu, leitar og björgunaraðgerða.

Föstudagur 9. janúar 2015

Í dag lauk í Keflavík vikunámskeiði bandarísku strandgæslunnar sem haldið var fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og erlenda samstarfsmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Noregi.

Námskeiðið fjallaði um skipulagningu leitar- og björgunaraðgerða á hafinu og var í umsjón kennara frá sérskóla bandarísku strandgæslunnar á sviði leitar og björgunar, sem ásamt mörgum öðrum sérskólum, er staðsettur í Yorktown í Virginíu fylki. Fjórir kennarar önnuðust kennsluna en ásamt því að kenna við skólann eru þau með mikla starfsreynslu, um er að ræða þyrluflugmann, skipstjóra á björgunarbátum og varðstjóra í stjórnstöðvum.

Samtals tóku um 35 manns þátt í námskeiðinu, tuttugu starfsmenn frá LHG, sem eru skipstjórnarmenn í flugdeild og á varðskipum auk varðstjóra í stjórnstöð LHG. Einnig átta starfsmenn og félagsmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, varðstjóri út björgunarstjórnstöð í Nuuk á Grænlandi sem er jafnframt starfsmaður danska flotans, tveir starfsmenn björgunarstjórnstöðvarinnar í Færeyjum og starfsmaður norska sjóbjörgunarfélagsins.

Námskeiðinu lauk í dag með formlegri útskrift og afhendingu skírteina sem staðfesta að þátttakendur luku viðurkenndu alþjóðlegu námskeiði í skipulagningu leitar- og björgunaraðgerða á hafinu. Að loknu námskeiðinu fengu kennarar bandarísku strandgæslunnar kynningu á starfsemi LHG og var þeim síðan boðið í veglega kynnisferð um starfsemi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. 

Myndir Jón Páll Ásgeirsson 




Leiðbeinendur og þátttakendur heimsóttur flugdeild Landhelgisgæslunnar. 
Thorben J. Lund, yfirstýrimaður tók á móti þeim.


Heimsókn í varðskipið Þór þar sem Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra tók á móti hópnum.