Fulltrúar Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Frontex nauðsynlegir fyrir varðskip og flugvél á svæðinu

  • LHG_SamvinnaAegirSif

Mánudagur 12. janúar 2015

Flugvél Landhelgisgæslunnar og varðskipið Týr eru um þessar mundir við eftirlit fyrir Frontex, Landamærastofnun EU á hafsvæðinu í kringum Ítalíu. Vegna alvarlegs ástands í Miðjarðarhafi og mikils flæði flóttafólks lagði Frontex mikla áherslu á að fá tæki Landhelgisgæslunnar til aðstoðar á svæðinu. Varðskipið Týr hóf eftirlit 1. desember sl. en flugvélin TF-SIF Í janúar byrjun og kemur hún aftur til Íslands um miðjan febrúar. Landhelgisgæslan tekur þátt í Frontex verkefninu í gegnum Schengen samstarfið en tuttugu og fimm Evrópuríki eru fullir þátttakendur þess. Kjarni Schengen-samstarfsins felst í annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi.

Landhelgisgæslan (LHG) er nú, sem endranær, með fulltrúa í sameiginlegri stjórnstöð sem tekur þátt í áætlanagerð og er milliliður við varðskip og flugvél LHG. Til þessa hefur LHG verið með fulltrúa í þremur löndum, Spáni, Ítalíu og Grikklandi. Komið hefur fyrir að LHG hafi verið með fulltrúa í tveimur stjórnstöðvum samtímis, t.d. þegar varðskip var staðsett við Spán og flugvélin við Ítalíu. Með þessum verkefnum hafa starfsmenn LHG í stjórnstöðvum Frontex öðlast mikla reynslu og þekkingu í alþjóðlegum samskiptum á vettvangi löggæslu, eftirlits og björgunarmála auk skipulagningar aðgerða.

Þeir starfsmenn LHG sem sendir eru til starfa í stjórnstöðvum Frontex eru að öllu jöfnu skipstjórnarmenn eða aðrir starfsmenn með umtalsverða reynslu í stjórnstöð, flugdeild, sjómælingadeild, sprengjudeild eða á varðskipum. Viðkomandi aðili er á vakt allan sólarhringinn þann tíma sem hann er á staðnum en það eru að jafnaði 3 vikur. Dagleg störf fulltrúans eru margvísleg, hann tekur þátt í daglegum stöðufundum, greiningu og miðlun upplýsinga, aðstoðar við samskipti milli eininga og stjórnstöðva Frontex og/eða strandgæslu/sjóhers viðkomandi ríkis. Einnig á fulltrúinn í daglegum samskiptum við Landhelgisgæsluna á Íslandi og fulltrúa annarra þjóða í stjórnstöðinni. Í þeim aðgerðum sem LHG hefur tekið þátt í, er fulltrúi hennar yfirleitt beinn þátttakandi.

Í dag eru fulltrúar fjögurra þjóða að vinna í stjórnstöðinni ásamt fulltrúum Ítalíu, en þaðan koma fulltrúar frá fimm ítölskum stofnunum, strandgæslu, sjóher, lögreglu og ríkislögreglu auk fjármálalögreglunnar sem heldur utan um verkefnið á Ítalíu. Auk þess er Frontex með fulltrúa á staðnum. Hér er mynd sem var tekin fyrir nokkru síðan á daglegum stöðufundi stjórnstöðvarinnar.

Mynd/Photo ©Ellen Hjelseth

Stöðufundur í stjórnstöð Frontex