Miklar annir hjá þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar í dag

Rétt upp úr klukkan níu í morgun þegar þyrla Landhelgisgæslunnar var á leið í hefðbundið eftirlit um Faxaflóa, Breiðafjörð og Suðvesturmið kom beiðni frá lögreglunni í Reykjavík um að þyrlan aðstoði við leit úr lofti meðfram norðurhluta strandlengjunnar í Reykjavík í tengslum við rannsókn lögreglu vegna líkfundar þar í gær. 

Aðstæður voru ekki með besta móti í morgun og því var ákveðið að endurtaka leitina nú síðdegis.  Í millitíðinni hélt þyrlan til eftirlits og æfinga með varðskipinu Þór. Er æfingunni lauk var þyrlan kölluð í sjúkraflug í Dalina en þar hafði maður slasast og var talið nauðsynlegt að koma honum sem fyrst undir læknishendur.

Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi nú rétt um þrjúleytið og hélt þá af stað til leitar að nýju við strandlengjuna þar sem aðstæður og birtustig eru betri nú en í morgun.