Ægir endurbættur - nýtt varðskip - ný eftirlitsflugvél

Fimmtudagur 8. september 2005.

Dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslan stóðu í dag fyrir fréttamannafundi um borð í varðskipinu Ægi þar sem kynntar voru hugmyndir um kaup á nýju varðskipi og eftirlitsflugvél og einnig nýafstaðnar endurbætur og breytingar á varðskipinu Ægi.


Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Halldór Nellett skipherra á varðskipinu Ægi taka á móti Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra um borð í Ægi í dag.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar kemur eftirfarandi fram:

Endurbætur og breytingar á varðskipinu Ægi

Varðskipið Ægir kom í gær frá Póllandi þar sem gerðar voru á því endurbætur og breytingar í pólsku skipasmíðastöðinni Morska Stocznia Remontova . Varðskipið Týr fer til Póllands á næsta ári þar sem samskonar breytingar og endurbætur verða gerðar á því.  Breytingarnar fólust í því að sett var í skipið ný og stærri brú ásamt samtengdum og samhæfðum siglinga- og fjarskiptatækjum (integrated bridge system).  Ný stjórnborð voru sett í fremri hluta brúar auk stjórnborðs fyrir flugumsjón ásamt fjarskiptaborði í afturhluta brúar.  Íbúðir áhafnar voru endurnýjaðar fyrir utan setustofur og eldhús. Öll íbúðaherbergi eru nú eins manns herbergi. Björgunar- og dráttarvinda var endurnýjuð og stækkuð. Vindan er nú með 47 tonna vinnuátaki og 90 tonna bremsu.  Ný stjórntæki voru sett fyrir akkeris- og dráttarvindur í brú og við vindur.  Ný stjórntæki voru einnig sett upp fyrir aðlavélar í brú og stjórnými véla.  Verkið hófst þann 18. apríl og því lauk þann 3. september.  Verkið tók því samtals 139 daga.  Því átti samkvæmt tilboði að ljúka þann 25. ágúst en afhending dróst til 3. september eða um 10 daga.  Skipasmíðastöðin Morska greiddi u.þ.b. 2 milljónir í dagsektir vegna seinkunar.

 

Að jafnaði unnu um 85-90 manns við verkið.  Tveir eftirlitsmenn frá Landhelgisgæslunni ásamt yfirvélstjóra skipsins sáu um eftirlit með verkinu og skiptu með sér verkum þannig að jafnaði voru tveir eftirlitsmenn frá Landhelgisgæslunni á verkstað.

 

Tilboð Morska hljóðaði upp á 1.558.065 Evrur eða 127.761.330 kr. fyrir varðskipið Ægi. Gengið á tilboðsdegi var 82,00 en það hafði lækkað talsvert er reikningar voru greiddir.  Heildarkostnaður við tilboðs- og aukaverk því tengdu nam samtals 1.662.510 Evrum á meðalgengi 78,9 eða 131.172.039 krónum.  Heildarkostnaður við verkið var því um 3.5 milljónum hærri en tilboðið hljóðaði upp á í upphafi en inni í þeirri tölu eru nokkur aukaverk sem kom í ljós að þurfti að framkvæma.  Fargjöld og dagpeningar áhafnar voru áætlaðir 1.203.200 en urðu 1.694.685.  Hækkun um 392.485 kr. stafaði af seinkun á afhendingu skipsins. 


Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók þessa mynd af varðskipinu Ægi þegar það kom frá Póllandi eftir endurbætur og breytingar.

Nýtt varðskip

Þær kröfur sem gera þarf til nýs varðskips eru helstar að það geti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu  Íslendinga, mengunarvörnum, siglt í ís, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrla á flugi og brugðist við almannavarnarástandi hvar sem er á landinu. Það verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, átt samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Það felur  í sér að draga skip og báta þar sem umferð stórra flutningaskipa mun stóraukast um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum.  Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir, m.a. nýjasta skip Norsku strandgæslunnar, sem sagt er frá á slóðinni:
http://www.mil.no/start/aktuelt/pressemeldinger/article.jhtml?articleID=93696

og aðrar útgáfur af því.


Harstad. Nýjasta skip Norsku strandgæslunnar.

Ný flugvél

Helsta krafan til flugvélar Landhelgisgæslunnar er að hún búi yfir nútíma greiningar- og samskiptatækni og hafi nægjanlegt flugþol til að sinna ofangreindu eftirliti í stórri efnahagslögsögu, þar sem m.a. þarf að fylgjast með ferðum skipa, mengun og hafís.  TF-SYN, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, er orðin 30 ára gömul og miklar tækniframfarir hafa átt sér stað síðan hún var keypt.  Með  nútíma eftirlitsflugvélum er hægt að sjá um eftirlit á mun stærra svæði með sama flugstundafjölda og TF-SYN. Ný eftirlitsflugvél þarf auk þess að hafa nægilegt þol til að taka þátt í löngum björgunar- og leitaraðgerðum og geta sinnt vettvangsstjórn og sjúkraflugi. Flugvélin þarf einnig að geta flogið utan vegna alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarmála. Ennfremur þarf vélin í ákveðnum tilfellum að sinna flugi á vegum stjórnarráðsins. Ýmsar flugvélategundir koma til greina og má þar nefna flugvélar eins og ATR 42, Dornier 328, Casa 235 og DASH 8. Valið var á milli þessara flugvélategunda í útboði vegna flugvélakaupa Sænsku strandgæslunnar á síðasta ári og er ljóst að þarfir Landhelgisgæslunnar eru svipaðar.  Sjá myndir af flugvélunum í myndaleit á google.com.


Dash 8 sem Sænska strandgæslan keypti í kjölfar útboðs.