Landhelgisgæslan fær skemmtilega heimsókn frá Þroskahjálp og Vinnumálastofnun

Það var kátt á hjalla í flugskýli Landhelgisgæslunnar er fulltrúar frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Vinnumálastofnun heimsóttu Landhelgisgæsluna nú fyrir skemmstu. Tilefni heimsóknarinnar var að afhenda Landhelgisgæslunni gjöf og vekja um leið athygli á verkefni sem ber heitið „Virkjum hæfileikana-alla hæfileikana“ sem snýst um að skapa störf fyrir fólk í atvinnuleit sem er með skerta starfsgetu.  
 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti gestunum og veitti fallega handunnum grip viðtöku sem tákn um átakið. Lýsti hann yfir vilja Landhelgisgæslunnar til frekara samstarfs á þessum vettvangi.
 
Gestunum bauðst að skoða þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar og fræddust þeir heilmikið um starfsemina. Fulltrúar Átaks sem er hluti af Landssamtökunum Þroskahjálp, þau Freyr Ágústsson og Dagný Kristjánsdóttir skelltu sér í flugmanns- og flugstjórasæti þyrlunnar TF-GNA og höfðu á orði að það væri ekki fyrir hvern sem er að sitja í þessum sætum og stjórna öðrum eins undratækjum í öllum veðrum. Gestir voru fróðleiksfúsir og áhugasamir um tækin og starfsemina og gleðin var svo sannarlega við völd.

 

Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tekur við gjöf til merkis um átakið úr hendi þeirra Dagnýjar Kristjánsdóttur og Freys Ágústssonar frá Þroskahjálp.

 

Efri röð frá vinstri: Bryndís Theódórsdóttir, M. Linda Ásgrímsdóttir og Vilmar Pétursson öll frá Vinnumálastofnun.

Neðri röð frá vinstri: Höskuldur Ólafsson flugtæknistjóri Landhelgisgæslunnar, Freyr Ágústsson og Dagný Kristjánsdóttir frá Þroskahjálp og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar.

 
Gestir mynda þyrluna TF-GNA
 

Þau Freyr og Dagný skelltu sér í flugmannssætin í þyrlunni GNÁ.

Sögðust þau þó almennt kunna betur við sig með fast land undir fótum.


 
 
 Um borð í flugvélinni TF-SIF.

 
Dagný og Freyr fyrir framan eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF.
 
Gestir í góðum gír að gæða sér á léttum veitingum.
 
Freyr og Dagný fyrir framan þyrluna GNA.

 

Hópurinn að lokinni vel heppnaðri heimsókn.

Frá vinstri: M. Linda Ásgrímsdóttir, Georg Kristinn Lárusson, Dagný Kristjánsdóttir, Höskuldur Ólafsson, Freyr Ágústsson, Vilmar Pétursson, Svanhildur Sverrisdóttir og Bryndís Theódórsdóttir.