Áhöfnin á varðskipinu Tý til bjargar flóttamönnum af fiskibát norður af Líbýu

Áhöfnin á varðskipinu Tý er nú í björgunaraðgerðum um 30 sjómílur norður af Líbýu þar sem talið er að um 200 flóttamenn séu á fiskibát, bjargarlausir.

Neyðarkall barst frá bátnum snemma í morgun og hélt Týr þegar á staðinn. Þrjú önnur skip eru á svæðinu en allt fólkið verður tekið um borð í Tý. Er ráðgert að halda með fólkið til Ítalíu þegar björgunaraðgerðum er lokið.

Talsverðar annir hafa verið á þessu svæði undanfarið en í gær tók Týr þátt í annarri aðgerð þar sem bátur með flóttafólki snéri við til Líbýu eftir að hafa sent út neyðarkall á svipuðum slóðum og Týr er á í dag. Týr mun sinna leit og björgun og landamæragæslu á þessu svæði fram í miðjan maí en ráðgert er að skipið komi til Ísland í lok maí.