Varðskipið Þór komið með flutningaskipið Hauk í tog - siglir áleiðis til Hafnarfjarðar

Varðskipið Þór er nú með flutningaskipið Hauk í togi áleiðis til Hafnarfjarðar en skipið var stjórnvana um fimm sjómílur suður af Dyrhólaey.

Var Þór kominn að flutningaskipinu rúmlega eitt í dag og hófst þá þegar vinna við að koma línu á milli skipanna. Gengu aðgerðir vel og var varðskipið komið með Hauk í tog rétt upp úr kl. 14:00.  Siglir varðskipið Þór nú með Hauk í togi áleiðis til Hafnarfjarðar og er áætluð koma þangað um hádegi á morgun, laugardag.

Flutningaskipið Haukur missti stjórnhæfni á miðvikudag út af Hornafirði og var Lóðsinn frá Vestmannaeyjum sendur austur til að draga Hauk til Hafnarfjarðar. Vegna slæms veðurs og sjólags gekk ferðin illa og var því óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að draga Hauk til hafnar.