Ritgerðir háskólanema um þorskastríðin birtar á heimasíðu Landhelgisgæslunnar

Ritgerðir háskólanema um þorskastríðin hafa nú verið birtar á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í dálkinum ,,Sagan” á slóðinni:

http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=38

Í formála með ritgerðunum segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur:

Þær ritgerðir, sem hér eru birtar, voru skrifaðar í námskeiði um þorskastríðin og fiskveiðideilur Íslendinga við erlendar þjóðir sem ég kenndi við sagnfræðiskor Háskóla Íslands á vorönn ársins 2005. Í upphafi námskeiðsins stakk ég upp á því við nemendurna að við reyndum að setja saman nokkurs konar yfirlit um sögu þorskastríðanna. Því var vel tekið og sem betur fer heltust aðeins örfáir úr lestinni þegar á leið.  Við ákváðum því í námskeiðslok að athuga hvort unnt væri að gera yfirlitið aðgengilegt á netinu. Í ljósi þess hve Landhelgisgæsla Íslands kom mikið við sögu í átökunum um útfærslu fiskveiðilögsögunnar lá beint við að leita til hennar. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, samþykkti með ánægju að hýsa skrifin á vef hennar og á þakkir skildar fyrir það. Gunnar Páll Baldvinsson, einn nemenda námskeiðsins, tók að sér að búa yfirlitið til netútgáfu og gegndi því verki með miklum sóma.

Auðvitað bera skrifin þess merki að þetta eru í raun námsritgerðir. Öllum athugasemdum og ábendingum um það, sem betur má fara, skal beint til mín, enda ber ég ábyrgð á því að ákveðið var að birta skrifin á netinu. Hugmynd okkar var hins vegar sú að í stað þess að hver nemandi skrifaði aðeins ritgerð, sem enginn læsi síðan nema kennarinn og kannski örfáir aðrir, myndum við stefna að því að auka aðeins við þekkingu manna á þorskastríðunum og fiskveiðideilum Íslendinga. Landhelgisgæsla Íslands og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands veittu verkefninu fjárstuðning og er hann þakkaður af heilum hug. Auk þess þakka ég nemendunum öllum sem tóku þátt í þessu verkefni og vona að lesendur verði einhvers fróðari um þennan merka þátt í sögu landsins.

Guðni Th. Jóhannesson
Hugvísindastofnun Háskóla Íslands
gudnith@hi.is