Óvenjuleg aðstoðarbeiðni

Mánudagur 29. ágúst 2005.

Verkefni varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og vaktstöð siglinga geta verið mjög fjölbreytileg en eitt dæmi um það var verkefni sem kom upp í nótt er Lárus Jóhannsson varðstjóri átti þátt í að bjarga rússneskum farþega ferju á leið til Finnlands frá þrjótum sem ógnuðu lífi hans.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga fékk aðstoðarbeiðni um 112 neyðarnúmerið frá farþega í ferju sem var á leiðinni frá Rostock í Þýskalandi til Hangö í Finnlandi.  Farþeginn sem var rússneskur hafði hringt í 112 og sagðist óttast um líf sitt.  Það óvenjulega var að hringingin skyldi lenda á Íslandi en það kemur víst einstaka sinnum fyrir vegna svokallaðrar reikivillu í GSM-kerfinu erlendis að því að talið er.

Maðurinn talaði mjög bjagaða ensku og sagðist vera staddur einhvers staðar á 7. eða 8. þilfari um borð í ferjunni en gat ekki sagt nákvæmlega hvar.  Hann var í mikilli geðshræringu og sagðist óttast um líf sitt.  Lárusi varðstjóra tókst að fá hann til að gefa upp nafn og símanúmer og hafði síðan samband við björgunarstjórnstöðina í Turku í Finnlandi en þar var gefið samband við björgunarstjórnstöðina í Tallin í Eistlandi þar sem rússneskumælandi menn starfa. Eftir að þeir náðu tali af skipstjóra ferjunnar fór slökkvilið hennar á stúfana að leita að manninum og fann hann heilan á húfi um kl. 4:30 og kom honum í öruggt skjól.  

Maðurinn hafði lent í útistöðum og slagsmálum við einhverja náunga sem einnig voru farþegar um borð í ferjunni og taldi þá greinilega líklega til alls.  Maðurinn bað björgunarmenn fyrir kveðjur með þakklæti fyrir aðstoðina.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.