Æfingin Northern Challenge 2005 hófst í morgun

Mánudagur 29. ágúst 2005.

Fjölþjóðleg  æfing  sprengjueyðingarsveita,  Northern Challenge 2005, hófst í morgun og   stendur   til   2.  september  næstkomandi. Landhelgisgæslan stendur fyrir æfingunni í samvinnu við Varnarliðið.

 

Þetta  er  í  fjórða  skipti sem Northern Challenge-æfingin er haldin. Að þessu sinni verður megin markmið æfingarinnar að líkja eftir raunverulegum hryðjuverkum sem framin hafa verið t.d. í London, Írak og Afganistan og gefa þátttakendum kost á að æfa viðbrögð við þeim. M.a. verða æfð viðbrögð við sjálfsmorðssprengjuárásum og hryðjuverkasprengingum í flughöfnum, höfnum og um borð í skipum.

 

Að minnsta kosti 130 viðfangsefni verða sett á svið fyrir sprengjusérfræðingana til að bregðast við.  Sex erlendar sprengjueyðingarsveitir taka þátt í æfingunni að þessu sinni en þær eru ýmist frá sjó- eða landherjum þátttökulandanna, Danmörku, Noregi, Bretlandi og Svíþjóð. Að minnsta kosti 50 þátttakendur koma erlendis frá en auk þeirra eru u.þ.b. 50 þátttakendur frá Landhelgisgæslunni, lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, öryggissviði Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Tollgæslunni í Reykjavík auk varnarliðsins. Alls koma því um 100 manns að æfingunni með einhverjum hætti.

 

Allar sveitirnar hafa sprengjueyðingu að aðalstarfi og hafa flestar þeirra starfað á átakasvæðum, m.a. í Írak, Afganistan, á Balkanskaga og á Norður Írlandi auk þess að sjá um viðbrögð við hryðjuverkum í sínu heimalandi.

 

Æfingin hefur heppnast mjög vel undanfarin ár og það er ekki síst að þakka góðu samstarfi við Varnarliðið, lögreglu og öryggisfulltrúa á Keflavíkurflugvelli.  Mörg sviðsettu viðfangsefnin eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli og í höfnum á Reykjanesi og eru áhugaverð fyrir þá sem starfa að varnar- og öryggismálum á Íslandi.

 

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sér lögum samkvæmt um sprengjueyðingu á Íslandi og sér einnig alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið.  Að mati sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar er mjög mikilvægt að halda slíkar æfingar til að viðhalda þekkingu og þjálfun og fylgjast með nýjustu tækni á þessu sviði.  Æfingar eins og Northern Challenge veita sprengjusérfræðingum tækifæri til að starfa við aðstæður sem eru eins raunverulegar og frekast er unnt, prófa tæki og tækni og læra hver af öðrum.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./fjölmiðlaftr.