Varðskip og þyrla kölluð út vegna vélarvana fiskibáts

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nú klukkan 15:40 beiðni um aðstoð frá 15 tonna fiskibáti sem var vélarvana undan Straumnesi. Þá þegar var varðskipið Ægir, sem statt var úti fyrir sunnanverðu Ísafjarðardjúpi kallað til auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var í eftirlitsflugi við Vestmannaeyjar. Einnig var björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði, Gunnar Friðriksson kallað út. 

Stuttu eftir að útkall barst kom annar minni fiskibátur á vettvang sem nær nú að halda við svo bátinn reki ekki upp í nesið. Varðskipið Ægir siglir nú hraðbyri í átt að vettvangi og mun senda léttabát varðskipsins á undan. Er áætlað að varðskipið verði komið á vettvang um hálffimm en léttabáturinn eitthvað fyrr.

Frétt uppfærð kl. 16:40:

Varðskipið Ægir er nú komið með fiskibátinn í tog og heldur með hann áleiðis til Ísafjarðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið afturkölluð sem og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og nærliggjandi skip og bátar sem stefnt var á svæðið til öryggis.

Afar mikil sjósókn hefur verið í dag og sú mesta sem af er ári enda veður gott á miðum umhverfis landið. Þegar mest lét voru tæplega 950 skip og bátar á sjó í dag.