Umfangsmikil leit að hollensku skútunni Daisy

Mánudagur 22. ágúst 2005.

Danska varðskipið Vædderen fann í morgun hollensku skútuna Daisy sem leitað hefur verið að síðan á laugardaginn. Ekkert amaði að áhöfninni, þýskum skipstjóra og tveimur öðrum í áhöfn skútunnar.

Starfsmenn vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fengu upplýsingar frá björgunarmiðstöðinni í Falmouth í Englandi um neyðarkall sem barst um gervitungl sl. laugardag.  Neyðarkallið kom frá neyðarbauju sem staðsett var um 100 sjómílur austnorðaustur af Hvarfi á Grænlandi eða 530 sjómílur frá Keflavík og hafði neyðarkallið sérstakt auðkennisnúmer.  Aðeins barst eitt neyðarkall.  Í fyrstu var jafnvel talið að neyðarkallið væri ekki raunverulegt en samt sem áður var strax til vonar og vara óskað eftir að nærstaddur norskur togari færi á svæðið og leitaði þar.  Leit áhafnar togarans bar engan árangur.

Starfsmenn vaktstöðvar siglinga og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar reyndu um helgina að ná sambandi við framleiðanda neyðarbaujunnar til að fá upplýsingar um auðkenni hennar og einnig var haldið upp fyrirspurnum hjá björgunarstjórnstöðvum í nágrannaríkjunum.  Í gærmorgun tókst loks að hafa uppi á framleiðanda baujunnar og kom þá í ljós að neyðarbauja með þessu auðkennisnúmeri hafði verið selt í skútu sem skráð er í Hollandi.  Skútan heitir Daisy og er 18 metra löng.   

Lítið sem ekkert var vitað um ferðir skútunnar Daisy nema að talið var að hún hefði látið úr höfn á vesturströnd Grænlands 16. eða 17. ágúst sl. og að förinni hefði verið heitið til Reykjavíkur.  Staðsetning neyðarkallsins var langt fyrir utan drægi þyrlna Landhelgisgæslunnar og Varnarliðsins og um þessar mundir er TF-SYN, Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, óflughæf vegna reglubundinnar skoðunar sem stendur í nokkra daga.  Í gær var heldur ekki mögulegt að senda TF-FMS, flugvél Flugmálastjórnar til leitar.

Landhelgisgæslan og Vaktstöð siglinga óskuðu liðsinnis nágrannaríkjanna og fór þyrla frá Grænlandi til leitar í gær og Nimrod-vél frá breska flughernum leitaði á svæðinu fram til miðnættis. Farþegaskipið Black Prince ráðgerði að sigla um leitarsvæðið og svipast um á leið sinni frá Grænlandi til Reykjavíkur.  Þá voru áhafnir farþegaflugvéla í áætlunarflugi, sem fljúga yfir svæðið, beðnar um að hlusta eftir neyðarsendingum.  Nimrod vélin átti síðan að hefja leit í morgun ásamt flugvél Flugmálastjórnar TF-FMS.  Til þess kom þó ekki því að danska varðskipið Vædderen, sem hélt af stað frá Íslandi til leitar í gærdag, fann skútuna kl. 6:20 í morgun, 160 sjómílur vestsuðvestur af Garðskaga og amaði ekkert að áhöfninni.  Hafði skútan misst neyðarbaujuna í sjóinn.

Samkvæmt upplýsingum framleiðenda neyðarbaujunnar eru baujur af þessari gerð með sleppibúnaði sem gerir það að verkum að þær fljóta upp á yfirborðið og halda áfram að senda út neyðarköll eftir að skip sekkur.  

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.