Hressir krakkar heimsækja varðskipið Ægi

Varðskipið Ægir fékk skemmtilega heimsókn á dögunum er hópur af hressum krökkum sem sækja sumarnámskeið á Sauðárkróki kíkti um borð. Varðskipið Ægir er sem stendur við bryggju á Sauðárkróki og er unnið við margvísleg viðhaldsstörf um borð. Tóku skipverjar á Ægi vel á móti krökkunum, sýndu þeim skipið vítt og breitt og sögðu þeim frá því helsta sem á daga þess hefur drifið. Hér má sjá mynd sem Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður tók af glaðbeittum hópnum að lokinni fróðlegri heimsókn. 

 
 Krakkarnir voru eldhressir og afar fróðleiksfúsir
 
 Varðskipið Ægir ber aldurinn vel