Takk fyrir daginn!

Það var mikið fjör í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag er hátt á þriðja þúsund manns lagði leið sína á opið hús Landhelgisgæslunnar. Til sýnis voru þyrlur, flugvél, sprengjubíll, köfunarbúnaður, bátar, sjókort, myndir og fjölmargt fleira úr starfseminni. Samstarfsfélagar okkar hjá Isavia, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Flugbjörgunarsveitinni tóku einnig þátt í deginum með okkur. Isavia sýndi glænýjan slökkvibíl sem notaður er til slökkvistarfa á flugvellinum, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sýndi sjúkrabíl og búnað hans, lögreglan kíkti við á mótorhjólum og Flugbjörgunarsveitin sýndi búnað sinn og aðstoðaði okkur við gæslu á svæðinu. Takk þið öll fyrir hjálpina og þann svip sem þið settuð á frábærlega vel heppnaðan dag.

Veðrið lék við okkur og gestirnir voru allir afar áhugasamir. Krakkarnir voru leystir út með blöðrum og ýmsu góðgæti og lögðu fjölbreyttar og flóknar spurningar fyrir okkar fólk. Alveg örugglega einhverjir framtíðarstarfsmenn okkar þar á ferð.

Við starfsfólkið erum alsæl með daginn og þökkum ykkur öllum kærlega fyrir komuna.

Hér eru nokkrar myndir frá frábærum degi. 

 
Gestir biðu spenntir eftir að kíkja um borð í þyrluna TF-LIF
 

Og sama gilti með flugvélina TF-SIF

 
Þyrlan TF-SYN var einnig til sýnis og fjölmargir kíktu um borð
 
Sprengjubíllinn vakti mikla athygli sem og búnaður þeirra sprengjukappa
 
Samstarfsfélagar okkar hjá Isavia sýndu þennan glæsilega slökkvibíl sem notaður er á Reykjavíkurflugvelli
 
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var á staðnum og sýndi gestum sjúkrabifreið og búnað hennar
 
Lögreglan kíkti við á mótorhjólum og vakti verulega lukku meðal yngstu kynslóðarinnar
 
Þessir Gæslukappar voru ánægðir með daginn
 

Félagar úr Flugbjörgunarsveitinni voru okkur til aðstoðar í dag og hér eru nokkrir þeirra

 
Mikið fjör var í flugskýlinu í dag
 
Mikill áhugi var á að skoða hina öflugu eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF