Fjörutíu ár frá ásiglingu breskra dráttarbáta á varðskipið Þór innan 12 sjómílna landhelgi

Í dag, 11. desember eru liðin 40 ár frá því siglt var á varðskipið Þór af breskum dráttarbátum í mynni Seyðisfjarðar. Skipherrann á Þór, Helgi Hallvarðsson tók þá ákvörðun að skjóta að bátunum sem hrökkluðust í burtu. Þór stórskemmdist en engin slys urðu á áhöfn varðskipsins.

Þessa frásögn sem hér má lesa frá þessum viðburðarríka degi tók Guðmundur Stefán Valdimarsson bátsmaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar saman en myndirnar tóku áhafnir varðskipa Landhelgisgæslunnar.

Að kvöldi 10. desember 1975 hélt varðskipið Þór inn til Seyðisfjarðar. Þá höfðu átök staðið á Íslandsmiðum síðan 15. október að landhelgin var færð út í 200 mílur. Fyrst sendu Bretar dráttarbáta til verndar togurum sínum en síðan 24. nóvember höfðu breskar freigátur verið á miðunum.

Skipherra á Þór var Helgi Hallvarðsson. Að morgni 11. desember þegar skipið lá inni á Seyðisfirði hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við skipið og tilkynnti um þrjú erlend skip í mynni Seyðisfjarðar. Var Þór sendur til að athuga málið. Skipin voru sögð langt inni í landhelginni og hefðu ekki tilkynnt sig.

Þór hélt út Seyðisfjörð og hugðist aðgæta hvað um væri að vera. Helgi skipherra og áhöfn hans koma að þremur breskum dráttarbátum í fjarðarmynninu aðeins eina sjómílu frá landi. Þessir dráttarbátar voru allir stærri en varðskipið. Lloydsman var þeirra stærstur, hann var yfir 2000 tonn, með mikla yfirbyggingu og geysilega mikið skip. Hinir dráttarbátarnir voru öllu minni, það voru þeir Star Aquarius og Star Polaris, en báðir meira en helmingi stærri en Þór.

 
Varðskipið Þór 

Þeir lágu þarna að því er virtist kyrrstæðir en með vélarnar í gangi. Veður var þokkalegt og það virtist vera taug á milli tveggja þeirra. Helgi skipherra kallar í þá og skipar þeim að útskýra hvað þeir séu að gera alveg upp í landsteinum en þeir svara ekki. Þórsmenn setja upp stöðvunarflaggið og skipa þeim enn að gera grein fyrir ferðum sínum. Þá gerast hlutirnir hratt. Það sem varðskipsmönnum sýndist vera spotti reyndist vera vatnsslanga og allt í einu er Lloyodsman kominn upp að Þór og siglir á hann á mikilli ferð, beint aftan á þyrluþilfarið. Svo mikill stærðarmunur er á skipunum að stefnið á Lloydsman keyrir Þór niður að aftan, rífur gat á þilfarið og ristir svo stórt gat í þilfarið að 18 metra gat myndaðist og sjór gekk niður í vélarrúmið. Handriðið aftan á Þór rifnar af, annar skorsteinninn kengbognar, bátagálgi fer af, menn missa fótanna um borð í Þór sem fær á sig 40° slagsíðu og snýst. Star Aquarius kemur svo að varðskipinu og keyrir á það hinu megin frá. Kastar dráttarbáturinn Þór aftur til og snýr honum alveg! Núna er Helga skipherra að verða nóg boðið. Honum er það ljóst að þessi fyrirsát er ekkert annað en tilraun til að sökkva Þór og það upp í harða landi. Hann gefur skipun um fulla ferð, sendir menn að fallbyssunni og gefur skipun um að skjóta púðurskoti.

 
Star Aquarius gerir sig líklegt til að sigla á varðskipið Þór
 

Það dugar skammt. Lloydsman gerir sig líklegan til að sigla aftur á Þór og þá tekur Helgi ákvörðun um að setja fast kúluskot í fallbyssuna, en til þess þarf leyfi frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík. Hann ákveður að sækja ekki það leyfi enda enginn tími til þess, það er ráðist á íslenskt varðskip innan einnar mílu frá landi og það stórskemmt. Að mati Helga er það ekkert annað en árás á íslenska lýðveldið. Nauðsyn brýtur lög. Helgi skipar mönnum sínum að skjóta á Lloydsman framarlega með föstu skoti. Það hittir með tilþrifum og fer í gegnum breska dráttarbátinn að framan! Helgi tekur þarna ákvörðun sem hann einn sem skipherra ber ábyrgð á, en mat hann aðstæður þannig að hefði bresku dráttarbátunum ekki verið sýnt í fulla hnefana, hefðu þeir gengið milli bols og höfuðs á Þór og sökkt honum.

 
Lloydsman siglir beint á varðskipið
 

Bresku dráttarbátarnir flýðu út. Týr kom til aðstoðar Þór og fylgdi honum inn á Loðmundarfjörð þar sem skemmdir voru kannaðar en Þór var stórskemmdur. Síðan var siglt inn á Seyðisfjörð. Á leiðinni inn þegar versnaði í sjóinn gekk stöðugt sjór inn í vélarrúmið ofan úr sundurtættu þyrluþilfarinu. Dælur voru notaðar og tókst að koma skipinu inn. Gert var við Þór til bráðabirgða af starfsmönnum vélsmiðju Seyðisfjarðar en síðan varð skipið að fara til Reykjavíkur í slipp, enda miklar skemmdir á því.

 
Star Aquarius og Lloydsman nálgast varðskipið en báðir eru mun stærri en Þór
 
Lloydsman skellur á varðskipinu
 
 
Þór stórskemmdist í átökunum