Sjúkraflug vegna slasaðs manns um borð í Akureyrinni

Fimmtudagur 4. ágúst 2005.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti slasaðan mann um borð í togarann Akureyrina í gærkvöldi.  Skipið var statt á Halamiðum, 50 sjómílur norðvestur af Ísafirði.

Skipstjórinn á Akureyrinni hringdi kl. 18:45 og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs manns um borð í skipinu.  Eftir að læknir í áhöfn TF-LIF hafði fengið nánari upplýsingar um ástand mannsins var ákveðið að sækja hann með þyrlu.

Áhöfn TF-LIF var kölluð út kl. 18:55 og fór þyrlan í loftið kl. 19:25.  Hún var komin að skipinu kl. 20:46.  Klukkan 21:20 voru sjúklingur og læknir hífðir um borð í þyrluna og lenti hún við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 22:30.

Sjá meðfylgjandi myndir sem áhöfn TF-LIF tók í sjúkrafluginu.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.